Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 15:53:24 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Já, ég endurtek það að þessar undanþágur eru óbreyttar nema það er ein fallin, var það ekki, forseti, sem Þór Saari tók hér fram? Eru það ekki líkbílarnir? Önnur er heldur útvíkkuð, dráttarvélar utan lögbýla. Hæstv. ráðherra hefur með einhverjum hætti séð aumur á dráttarvélum sem ekki eru notaðar á lögbýlum og væri auðvitað fróðlegt að fá skýringu á því á sínum stað ef tími leyfir.

Höfuðatriðið fyrir utan almennar umræður um bifreiðagjald og álögur á almenning er að hér er verið að nota skattkerfið sem hvata á jákvæðar breytingar. Bílarnir eru til þess góður vettvangur vegna þess að þar er hægt að ná árangri á mjög skömmum tíma. Það er það mikil velta í bílaflotanum. Ég man ekki nákvæmlega tölurnar um hvernig hann endurnýjast, fyrir hrun held ég að það hafi verið þannig að helmingur bílaflotans endurnýjaðist á 10 árum, þannig að ef menn geta skapað hvata til þess að minnka mengun og útblástur í bílaflotanum geta menn náð árangri í því máli á tiltölulega skömmum tíma. Þetta er eitt af því sem hefur valdið okkur umhverfissinnum áhyggjum að við berjumst og berjumst í málum en kjörtímabilið er ekki sá tími sem þarf til þess að ná fram breytingum í umhverfismálum, heldur er það áratugur eða áratugir. En það gerist auðvitað.

Af þessum ástæðum hefur þetta frumvarp aðallega einn galla, það er allt of seint fram komið.