Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 16:13:38 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér alvarlegt mál sem er mengun í heiminum og aukning gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna er kannski ekki viðeigandi að þingmaðurinn sé með þessi gamanmál sem hann er með hér. Það er ekkert annað en gamanmál að segja að við verðum komin í Evrópusambandið eftir stuttan tíma. Það er hins vegar alveg rétt að við verðum partur af hinu evrópska kerfi með sölu og kaupum á mengunarleyfum vegna EES-samningsins.

Hvað varðar spurninguna sem hv. þingmaður beindi beint til mín um þá miklu fórnfýsi sem við hv. þingmaður Pétur Blöndal virðumst sýna með því að virðast vera tilbúnir til að taka til okkar álverin er það alveg rétt að mikil fórnfýsi er falin í því. Þegar maður er kominn á það stig í tilveruna að maður fer að hugsa meira um aðra en sjálfan sig er maður kominn ansi langt. Hvað varðar mannfjölgun á Íslandi veit ég ekki hver talan er nákvæmlega sem ég mundi vilja sjá á Íslandi, hvort það eru 3,3 milljónir, en ég fullvissa þingmanninn um að í þeirri fullkomnun sem felst í því að fórna sér fyrir aðra væri ég tilbúinn til að fjölga Íslendingum allverulega með því að leyfa fólki að flytja hingað til lands.