Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 16:15:39 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með Steingrím J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, að komi einhvern tíma til þess að honum verði reistur minnisvarði fyrir störf sín í þágu þjóðarinnar í fjármálaráðuneytinu þá verður hans væntanlega minnst fyrir að vera sá fjármálaráðherra í sögunni sem hefur hækkað skatta mest, í lýðveldissögunni. (ÓGunn: Hvað með Geir H. Haarde?) Hvað með Geir H. Haarde er kallað fram í, nei, það er rangt hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, hann mun ekki fá þann stimpil heldur sá hæstv. fjármálaráðherra sem nú er vegna þess að honum hefur tekist að setja Íslandsmet í skattahækkunum hvort sem varðar tekjuskatta á einstaklinga, fyrirtæki, virðisaukaskatt eða hvaða aðra skattheimtu eða gjaldtöku sem nöfnum tjáir að nefna.

Síðastliðna viku voru miklar og heitar umræður um frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum, mikið frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram og mælti fyrir. Það frumvarp kvað á um að taka skyldi, ef ég man rétt, 8,7–9 milljarða kr. úr vösum skattgreiðenda, almennings og fyrirtækja, í formi hærri skatta og færa í ríkissjóð. Ég fylgdist með umræðunni. Maður veltir því auðvitað fyrir sér þegar maður fylgist með þeirri tillögugerð sem fram kemur frá fjármálaráðuneytinu um þessar mundir og þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu hvort þeir sem standa að tillöguflutningnum búi hugsanlega í öðru landi en við hin. Menn virðast ekki átta sig á því að hér varð efnahagshrun, kaupmáttur hefur rýrnað, fyrirtækin berjast í bökkum og það er ekki af neinu að taka, það er ekkert til skiptanna sem réttlætir eða gefur tilefni til að rökstyðja auknar skattheimtur.

Það má hæstv. fjármálaráðherra eiga að hann bregst hvorki aðdáendum sínum né röngum málstað og er enn við sama heygarðshornið. Nú eru það vörugjöldin og bifreiðagjöldin sem á að hækka samkvæmt því frumvarpi sem er til umfjöllunar. Það er reyndar gert undir því yfirskini að um sé að ræða mál sem snúist um umhverfisvernd og er skattahækkunin færð í þann búning og réttlætt með því að verið sé að tryggja umhverfisvænni akstur og minni útblástur. Það er út af fyrir sig ágætismarkmið sem ég get alveg tekið undir en ég hef miklar efasemdir um að leiðin sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til sé sú rétta. Maður veltir því líka fyrir sér við núverandi aðstæður hvort heimilin og atvinnurekstur í landinu geti staðið undir þeim hækkunum sem lagðar eru til.

Það er alveg ljóst af lestri frumvarpsins að eigendur stórra bíla í framtíðinni munu þurfa að greiða mun hærri vörugjöld af ökutækjum sínum en þeir gera nú. Ég tók eftir því að hæstv. fjármálaráðherra lét að því liggja að þessi hækkun næði einungis til allra stærstu bílanna en þegar menn skoða listann og fara yfir þær reiknireglur sem frumvarpið gengur út frá og mælt er fyrir um þá mundi ég túlka frumvarpið frekar á þann veg að hækkunin næði til flestra stórra og meðalstórra bifreiða, jafnvel meðalfjölskyldubifreiða. Ég get farið yfir það á eftir. (Fjmrh.: Þú hefur svo dýran smekk.) Nei, nei, ég hef ekki dýran smekk, hæstv. fjármálaráðherra. Minn fyrsti bíll var Volkswagen-bjalla sem ég gerði upp sjálfur og var stoltur af á sínum tíma eins og hæstv. fjármálaráðherra er stoltur af sinni Volvo-bifreið sem ég veit að er gömul og góð. Ég hef ekki dýran smekk. Hins vegar þurfa ýmsir á stærri bílum að halda. Þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni hafa talað um að fólk á landsbyggðinni búi við allt aðrar aðstæður en þeir sem búa í þéttbýli og þurfi því á stærri ökutækjum að halda.

Það er auðvitað tómt mál að tala um að íbúar í hinum dreifðari byggðum geti a.m.k. yfir vetrarmánuðina ferðast um svo vel sé á smærri bílum. Hæstv. ráðherra veit að menn ferðast ekki um fjallvegi landsins, eins og Steingrímsfjarðarheiði svo dæmi sé tekið, á Toyota Yaris eða um Vestfirðina eða Austfirðina yfir vetrartímann. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra veit það manna best. En með þeirri reglu sem lögð er til í þessu frumvarpi er líka verið að rukka menn sérstaklega fyrir að tryggja öryggi sitt. Vilji menn gera það þurfa þeir að borga meira. Það er einfaldlega þannig að öryggi manna í umferðinni er betur tryggt eftir því sem þeir eru á stærri og sterkari bílum. En sú leið sem hæstv. fjármálaráðherra ætlar að fara með þessu frumvarpi gengur út á að hegna þeim sem vilja gera öryggissjónarmiðum hátt undir höfði.

Það er auðvitað mjög margt í þessu frumvarpi sem þarfnast sérstakrar skoðunar og ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif verði það að lögum óbreytt, bæði fyrir atvinnustarfsemi í landinu en ekki síður fyrir einstaklinga. Ef menn rýna í ákvæði frumvarpsins er ljóst að það mun hafa ýmis hliðaráhrif á einstakar atvinnugreinar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að ég hygg og vona að ég muni rétt, að gert væri ráð fyrir að frumvarpið mundi auka tekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. samkvæmt áætlun með einhverjum skekkjumörkum. En það er allt eins víst að verði frumvarpið að lögum muni hliðaráhrifin leiða til þess að ríkið verði af tekjum sem það hefði annars orðið sér úti um vegna einstakra atvinnugreina. Mér hefur t.d. verið bent á að frumvarpið komi einstaklega illa við bílaleigur landsins. Ég aflaði mér upplýsinga um að 41% ferðamanna ferðuðust um á bílaleigubílum, þ.e. þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands. Það segir sig sjálft að hækki verðskrá bílaleiganna og þar með tilkostnaður ferðamanna er viðbúið að gistinóttum fækki, m.a. á landsbyggðinni. Í öllu falli mun sú hækkun sem frumvarpið mælir fyrir um skaða ferðaþjónustuna sem atvinnugrein beint með þeim dómínóáhrifum sem augljós eru og lesa má út úr frumvarpinu. Önnur dæmi um þessi áhrif eru fjölmörg.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér þegar ég las frumvarpið að það virtist mæla fyrir um að lægri tollar yrðu felldir út eða tollareglum af atvinnubílum og pallbílum yrði breytt. Þá á ég við smærri vinnubíla og pallbíla sem áður voru í 13% tollflokki en verða núna flokkaðir eftir CO 2 -gildi sem þýðir t.d. að pallbílar eins og t.d. Toyota Hilux fara í 65% tollflokk í staðinn fyrir 13%. Það er alveg ljóst að sú breyting mun hafa töluverð áhrif á sölu á þessum bílum. Það segir sig sjálft, ef tollurinn hækkar úr 13% í 65% mun það hafa veruleg áhrif á verð bifreiðanna en kaupendur að slíkum bifreiðum eru fyrst og fremst fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri. Það kann að vera að þetta sé misskilningur hjá mér en ég fæ ekki annað lesið út úr frumvarpinu. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að ráðast í slíkar hækkanir. Ég legg til að þingnefndin sem fær málið til umfjöllunar fari yfir þennan þátt eins og aðra.

Ég verð síðan að taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem gerði 1. gr. frumvarpsins að umræðuefni í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þar sem fjallað er um metanbíla. Menn þurfa að svara þeirri spurningu hvort þeir séu almennt sáttir við þau hámörk sem greinin kveður á um, þ.e. að á þá bíla leggist 750 þús. kr. hámark. Ég hef aflað mér upplýsinga um að t.d. venjulegur metan Volkswagen Passat bíll muni hækka í verði miðað við þessa breytingu. Eru það markmiðin sem stefnt er að með þessu frumvarpi? Er það ekki frekar þannig að menn vilji hvetja fólk til að velja umhverfisvænni fararkosti en það gerir nú? Mér sýnist frumvarpið hafa að einhverju leyti öfug áhrif.

Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp, virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin fari vel yfir málið, einstaka flokka bifreiða og hvaða áhrif frumvarpið hafi á þá og sömuleiðis þau hliðaráhrif sem það kann að hafa á einstakar atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustuna sem ég benti á og geri ráð fyrir að komi athugasemdir frá í tengslum við meðferð frumvarpsins í nefnd.