Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 16:29:08 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Ég vil í upphafi ræðu minnar lýsa því yfir að ég fagna mjög þeim áherslubreytingum sem verða þegar frumvarpið verður að lögum sem ég geri ráð fyrir að verði. Það er farið úr þeirri röngu hugmyndafræði að mínu viti, að skattleggja eða taka gjöld af bílum eftir þyngd þeirra en fara frekar yfir í losun sem er í rauninni miklu nútímalegra fyrirbæri. Að mínu viti er hér um mikið framfaraskref að ræða. Þetta er hvati til umhverfisvæns lífsstíls og mun væntanlega á ekki svo mjög löngum tíma, eins og raunar hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna á undan mér, leiða til þess að bifreiðafloti landsmanna mun breytast í umhverfisvænni bifreiðar.

Sú áhersla sem hér kemur líka fram til að mynda á innlenda orkugjafa, þ.e. hvatinn til að fjárfesta í bílum sem geta notað innlenda orkugjafa hvort heldur um er að ræða bíódísil sem er í farvatninu að framleiða á fáeinum stöðum eða metan og jafnvel aðra orkugjafa, er líka mjög jákvæð. Það sparar gjaldeyri og skiptir miklu máli upp á framtíðina að gera.

Þetta gerir það líka að verkum að væntanlega verða til að mynda tengiltvinnbílar, þegar þeir verða almennur valkostur á markaði, mun jákvæðari kostur fyrir fólk og hvati til þess að fólk skipti yfir í þá en þar eru á sama hátt að stærstum hluta til notaðir innlendir orkugjafar, þ.e. rafmagn.

Þetta er ekki síður jákvætt fyrir sveitarfélögin, þ.e. fyrir stærri þéttbýliskjarnana, stóru sveitarfélögin þar sem mengun er mjög mikil eins og hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna og hvatinn til að nota ekki koltvísýringsmengandi bifreiðar í þéttbýli er því afar mikilvægur. Ég hef hins vegar skilning á þeim sjónarmiðum sem komu til að mynda fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni áðan um notkun bifreiða á landsbyggðinni þar sem oft og tíðum er hreinlega þörf fyrir stærri og aflmeiri bifreiðar til að komast um, en það má benda á að hvatinn á þeim vettvangi til að láta breyta bifreiðum í metanbifreiðar ætti að vera nákvæmlega sá sami þegar við verðum búin að vinna úr þeim skorti sem í dag er á því að hægt sé að kaupa metan annars staðar en í Reykjavík. Það er í gangi, það er til að mynda í undirbúningi þingsályktunartillaga um það efni, um metanframleiðslu víðar en á höfuðborgarsvæðinu og er það vel.

Það eru nokkrir þættir í frumvarpinu sem ég hef kannski ekki áhyggjur af en vil vekja máls á. Að mínu viti eru fullmargar undanþágur í frumvarpinu, það mætti fækka þeim og það má kannski beina því til þeirrar nefndar sem fær frumvarpið til umfjöllunar að reyna með einhverju móti að draga úr þeim. Reynslan sýnir okkur að því fleiri undanþágur sem eru til staðar því líklegra er að fólk reyni að hoppa inn í þær holur, ef svo má segja, sem þar myndast og spara sér þannig gjöld og kostnað.

Í frumvarpinu er ekki talað mikið um almenningssamgöngur aðrar en hópferðabifreiðar. Það er kannski annar hvati sem við ættum að hafa með í öllum frumvörpum um koltvísýringslosun eða frumvörpum um samgöngur yfirleitt eða samgöngumáta. Við megum ekki gleyma því að það vantar tilfinnanlega öfluga hvata í skattkerfið til að hvetja fólk til að nota umhverfisvænni kosti eins og til að mynda almenningssamgöngur. Þar erum við langt á eftir nágrannaþjóðunum og þyrftum að taka okkur á. Niðurfelling á gjöldum til að mynda vegna almenningssamgangna og hópferðabifreiða í jafnvel enn meira mæli en gert er mundi væntanlega einnig virka hvetjandi á ferðaþjónustu og gæti þannig skipt mjög miklu máli.

Ég vil nefna vegna þess sem hefur komið fram í tali sumra hv. þingmanna, að hér sé um umframskattlagningu að ræða og hér sé verið að fara fram með stórfelldri mismunun o.s.frv., að við sem þjóð verðum að fara að átta okkur á því að við þurfum að fara að lifa á umhverfisvænni hátt. Við getum ekki endalaust hangið á þeirri mýtu, sem Íslendingar hafa lengi hangið á, að hér sé allt svo hreint og fínt, sem hefur í rauninni þegar grannt er skoðað kannski að stærstum hluta legið í því að við erum svo heppin að þeir orkugjafar sem við notum m.a. til húshitunar eru ekki mengandi í sjálfu sér og við erum svo heppin að búa fá í stóru landi. En hins vegar þegar skoðuð er einkaneysla fólks og mengun einkabíla á Íslandi þá er hún óvíða meiri á mann en einmitt hér. Þessu þurfum við að taka á.

Ég vil að lokum fagna þeim áherslum sem koma fram í þessu frumvarpi, þ.e. að reyna á skynsamlegan hátt að hvetja til þess smátt og smátt að Íslendingar skipti yfir í umhverfisvænni kosti í samgöngum og í því tilliti er frumvarpið mikil framför.