Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 16:43:42 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held þegar allt kemur til alls að það sé afar stutt á milli sjónarmiða minna og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hvað þessi mál varðar. Við erum klárlega sammála um að þetta sé sú leið sem við eigum að stefna í. Það má kannski velta því fyrir sér eða hugsa sem svo að við yfirferð og endurskoðun á þeim undanþágum, sem mig minnir að hafi komið fram í umræðunni áðan að væru einhvers staðar á bilinu 20–30, mætti kannski skipta út einni eða tveimur undanþágum fyrir einhvers konar landsbyggðarundanþágu ef menn geta sýnt fram á að það sé hreinlega framkvæmanlegt. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það með hv. þingmanni, en meginhugsunin hlýtur að vera á þessa leið og ég treysti því að í meðförum væntanlega efnahags- og skattanefndar muni þessar athugasemdir hv. þingmanns og annarra þingmanna hvað þessi mál varðar koma til gagngerðrar skoðunar og fá þá umfjöllun sem skylt er að þær fái.