Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 17:15:54 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er vænlegt að nota hagræna hvata og það má hugsa sér, t.d. í landbúnaði að þeir séu nýttir til að hvetja bændur til að búa til gas og aðrar afurðir úr afurðum sem koma frá búunum og eru ekki nýttar.

Ég ætla ekki, frú forseti, að útiloka að frumvarpið og hugsunin sem í því er nái fram að ganga með samþykki stórs hluta þingsins. En eins og það liggur núna fyrir finnst mér ákveðið óréttlæti í því og þá agnúa vona ég að nefndin taki fyrir og reyni að sníða af. Stefnubreytingin er ekki alslæm en það þarf hins vegar, eins og ég segi, að sníða agnúana af sem við höfum bent á. Þetta er eitt af þessum málum sem taka þarf tillit til aðstæðna sem eru á okkar ágæta landi.