Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 17:47:43 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Jæja, frú forseti, þá erum við komin í sjávarútveginn. Það hefur fátt verið okkur óviðkomandi í umræðunni.

Fyrst um bifreiðar fatlaðra er það þannig að bílar sem eru sérútbúnir og flokkaðir til flutninga á fötluðum í eigu ríkis og sveitarfélaga eða stofnana eða í eigu fatlaðra eru undanþegnir vörugjöldum samanber undanþágurnar sem hér eru listaðar upp í 2. gr. frumvarpsins, og segir hér sérstaklega í m-lið:

„Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum eða fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum“ o.s.frv. eru undanþegnir að þessu leytinu til vörugjöldum. (Gripið fram í.) Já.

Auðvitað kaupa fatlaðir bíla sem eru ekki sérstaklega útbúnir og uppfylla ekki þessi skilyrði. Þeir fá styrki til þess með tilteknum hætti að endurnýja bíla sína með nokkurra ára millibili. Ég geri ráð fyrir því að bilið sé breitt hvað varðar tegund, stærð og gerð bílanna.

Það er erfitt að nálgast þetta út frá því að tilteknir þjóðfélagshópar óháð búsetu, þó að auðvitað sé eitthvað til í því sem þar er sagt, kaupi sér svona bíla frekar en hina. Það er fullt af fólki í þéttbýlinu sem er með stóra og mikla bíla af því að það vill fara á hálendið o.s.frv. Öðrum finnst það sport. Það verður varla þverfótað fyrir risavöxnum trukkum á götum Reykjavíkur þannig að þeir eru sannarlega til staðar ekkert síður en annars staðar.

Varðandi flotann finnst mér að það megi ræða um umhverfismálin þar, burt séð frá afstöðu til stefnunnar til sjávarútvegs að öðru leyti eða fiskveiðistjórnarkerfinu. Það gengur nokkuð vel í sjávarútveginum í það heila, það viðurkenna það allir. Tekjustreymið er gott, afurðir góðar (Gripið fram í.) og þetta hefur gengið býsna vel. Gæti það hugsast að þar kæmu skuldir við sögu, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) að mörg sjávarútvegsfyrirtækin séu þunglestuð skuldum? Það hefur vissulega gengið hægt að vinna úr þeim málum. Ég er ekki viss um að þessi grýla um að (Forseti hringir.) hugsanlega verði gerðar breytingar í fiskveiðistjórnarkerfi lami alla. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ekki.