Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 18:00:44 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[18:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur kannski einmitt verið að hlaupa á milli húsa þegar ég fór rækilega yfir málið í framsöguræðunni og gerði grein fyrir stöðu þess hluta sem varðar skattalega meðferð á innflutningi netþjóna í eigu erlendra aðila sem eru komnir með starfsstöð en eru ekki skattaðilar á Íslandi, hafa ekki fengið virðisaukaskattsnúmer og annað í þeim dúr. Það skapar vandamál sem er nokkuð snúið úrlausnar vegna þess einfaldlega að viðkomandi aðili er ekki til í skattalegum skilningi á Íslandi. Vandinn er sá að við erum ekki ein í ráðum um hvernig það er útfært eða á því tekið. Málið er í vinnslu í samstarfi við ESA. Við höfum haft samráð við ESA um hvað okkur sé tækt eða heimilt í þeim efnum og sjáum ekki að það þjóni tilgangi að reyna að fara fram með málið nema hafa einhverja vissu fyrir því að það sem við reynum að gera fái staðist.

Því miður er fjárfestingarsamningurinn við Verne Holdings kominn í rannsókn hjá ESA. Það hjálpaði ekki til að hann var tilkynntur fullseint út og framkvæmdirnar voru hafnar áður en samningurinn og tilkynningin fóru sem léttir ekki róðurinn þegar kemur að því að sannfæra ESA um að einhver frávik frá almennum skattareglum séu réttlætanleg.

Við höfðum bundið vonir við að við fyndum engu að síður lausn á þessu, a.m.k. í formi tiltekinnar aðlögunar eða tímabils uppbyggingar og þróunar starfseminnar þar sem við fengjum að víkja frá almennum reglum í þessum efnum og láta á það reyna hvort samþykki fengist fyrir því. Vonin um að leysa þann þátt málsins er að því er virðist bundin við að við fáum grænt ljós á samþykki slíkrar ívilnunar sem ætti að geta þjónað þeim tilgangi að á uppbyggingartímanum og kannski í gegnum innflutning fyrstu kynslóða netþjóna yrði heimilt að fella niður (Forseti hringir.) greiðslur á gjöldum. Hvað framtíðina varðar er erfiðara að segja fyrir um.