Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 18:06:35 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[18:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nánar tiltekið rafræna þjónustu og eftirlit vegna áætlana. Við getum sagt að stór hluti af þessu sé tiltekt og verið sé að færa í betra horf en að í meginatriðum snerti það þrennt.

Það er í fyrsta lagi gagnaverin. Það er verið að skilgreina rafræna þjónustu og sölu yfir netið sem snertir gagnaverin og það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að tala um að sé vandamál sem ekki verði tekið á hér, þ.e. virðisaukaskattur á tækjum og tólum sem þarf til að geta starfrækt gagnaver og þann virðisaukaskatt þurfi fyrirtækin að bera. Hugsanlega eyðir það að einhverjum hluta samkeppnisforskoti vegna ódýrrar orku og veðurfars hér á landi sem gerir orkunotkun vegna kælingar minni en ella.

Ég tel lausnina á því geta verið nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra minntist á að skapaði vandamál sem er að þau fyrirtæki sem hingað koma til að starfa í gagnaverunum eða nýta sér þau verða ekki íslenskir skattgreiðendur. Lausn á þessu hefur reynst með ágætum, sérstaklega í þróunarlöndum þar sem voru búin til það sem er kallað á ensku „special economics zones“ eða efnahagssvæði sem liggja aðeins fyrir utan markaðssvæði og þurfa því ekki að þola það sama og innlend fyrirtæki hvað varðar skattlagningu og annað slíkt. Spurning er hvort ekki þjónaði tilgangi að skilgreina svona svæði kringum gagnaverið þannig að fleiri fyrirtæki gætu risið og notið þessa sérstaka skattfrelsis. Þá gætu menn spurt: Hvað græðum við Íslendingar á því? Í fyrsta lagi græðum við störfin og skatttekjur sem koma af þeim, afleidd þjónusta og kaup á afleiddri þjónustu skapa tekjur fyrir ríkissjóð og síðast en ekki síst fáum við peninga fyrir rafmagnið sem fyrirtækin nota.

Ég skýt því að hæstv. fjármálaráðherra hvort við ættum að spá í að skilgreina svona svæði á nokkrum stöðum á Íslandi. Það mundi eyða mörgum af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir þegar fyrirtæki koma hingað og það gæti verið mjög aðlaðandi fyrir erlend fyrirtæki að koma og starfa innan slíks svæðis.

Í öðru lagi er það eftirlit. Ég held að það sé ekki nema af hinu góða að menn gjaldi keisaranum það sem keisarans er. Ef hægt er að skýra þær reglur sem þarf að fara eftir og auðvelda eftirlit og annað slíkt þá er það af hinu góða. Maður á ekki að stela úr eigin hendi með því að svíkja undan skatti.

Í þriðja lagi er það atriði sem fær mig til að hugsa svolítið. Það er þetta með að afnema endurgreiðslu á virðisauka á heitu vatni, rafmagni til húshitunar og laugarvatni. Því er haldið fram að eingöngu verði um einhvers konar breytingu að ræða, kerfisbreytingu. Nú færist málið yfir á vettvang iðnaðarráðuneytisins og verður væntanlega bætt þar. Mér er þó sérstaklega hugleikið rafmagn til húshitunar. Það er ljóst að hér búa nokkuð mörg heimili við það að geta ekki notið hitaveituvatns. Mig minnir að það séu eitthvað í kringum 13 þúsund heimili af kannski 120–130 þúsund heimilum í landinu. Nú ber svo við að ég er í iðnaðarnefnd og er nýbúinn að fara yfir hlut iðnaðarráðuneytisins í fjárlögunum. Þar kemur í ljós að verið er að lækka niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar en í engum lið, getum við sagt, er gert ráð fyrir að hægt sé að taka af til að bæta upp þessa undanþágu. Það væri áhugavert að heyra hæstv. fjármálaráðherra fjalla aðeins um það. Er hugsunin að þetta komi inn í einhvers konar aukafjárveitingu eða verða breytingar á fjárlagafrumvarpinu núna í meðförum þingsins eða hvernig er þetta hugsað? Það gengur alls ekki upp eins og gefið er í skyn að þetta sé einföld kerfisbreyting þar sem málið færist á forræði iðnaðarráðuneytisins. Iðnaðarráðuneytið verður náttúrlega að fá pening til að sjá um það.

Aðeins að lokum um rannsókn ESA á gagnaverinu: Meðan iðnaðarnefnd var með málið til meðhöndlunar var leitað álits hjá ESA og ESA lagði til breytingar. Mig minnir að þær hafi verið tvær. Önnur þeirra var að samningstíminn yrði styttur. Við fórum að því. Hitt atriðið var — ég man ekki alveg nákvæmlega hvað það var en við fórum líka að því. Svo kemur í ljós að ESA ætlar að taka málið til rannsóknar. Forsvarsmenn fyrirtækisins virðast ekki hafa miklar áhyggjur af því, eins og þeir orðuðu það vonuðust þeir til að sleppa við rannsókn en það yrði ekkert mál þó að hún færi fram.

Fleiri orð ætlaði ég ekki að hafa um þetta frumvarp en í efnahags- og skattanefnd mun ég kynna mér það betur og fjalla væntanlega nánar um það í 2. umr.