Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 18:14:54 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[18:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að bregðast við því sem hér kom fram og spurningunni um hvort lausnin sé fólgin í því að fara alla leið með uppbyggingu gagnavera og eftir atvikum kannski meiri starfsemi og búa til skattafrísvæði eða skattaparadísir með allt öðrum reglum en giltu fyrir landið að öðru leyti. Ég verð að játa að það er ekki sú lausn sem mér kemur fyrst í hug að væri góð fyrir okkur til frambúðar litið. Í fyrsta lagi vegna þess að almennt er þróunin og viðleitnin sú að draga úr slíku. Reyndar hefur sums staðar lengi verið viðleitni í þá átt, t.d. innan OECD, að draga úr skattundirboðum og því að skattasmugur væru nýttar.

Í öðru lagi hafa orðið veruleg veðrabrigði í umræðum um þau mál eftir að efnahagshrunið varð og sótt fram af miklu meiri hörku gegn þeim sem reyna að lokka til sín starfsemi með skattalegum undirboðum. Ég held að við yrðum ekkert sérstaklega vel séð í samkeppnislegu tilliti í heiminum ef við reyndum að komast upp með slíkt í samkeppni við nágrannaríkin þar sem reynt er að halda uppi samevrópskum viðmiðum og reglum í þessum efnum. En við þurfum að sjálfsögðu líka að vera samkeppnisfær.

Ég held að við þurfum líka að velta einu fyrir okkur ef við trúum því, sem ég reyndar geri, að uppbygging gagnavera og þjónusta og hýsing á gögnum og jafnvel geymsla þeirra, úrvinnsla og fleira gæti orðið góð búbót í efnahagslífi okkar og atvinnulífi út á þá hluti sem við höfum sannarlega að bjóða. Maður hefði þá viljað trúa að þeir væru nægjanlegir til að skapa okkur það samkeppnisforskot sem til þarf. Við erum orðin mjög vel tengd í gegnum þá miklu fjárfestingu sem lögð hefur verið í sæstrengi og er allt of lítið nýtt enn sem komið er. Hér er svalt loftslag og það dregur úr þörf fyrir kælingu. Við erum með ódýrt og nóg byggingarland og þekkingu og mannauð til að veita þjónustu á þessu sviði og við erum með umhverfisvæna og samkeppnisfæra orku. Maður spyr sig: Er það ekki nóg? Þarf meira til? Þurfum við til viðbótar að bjóða upp á verulegar skattaívilnanir og frávik frá almennum skattareglum og ákvæðum um t.d. tvísköttunarsamninga og annað sem almennt er reynt að halda í heiðri í samskipum ríkja? Til framtíðar hljótum við að vilja að atvinnulífið sem byggist upp sé samkeppnisfært og starfsemi þess skili arði inn í samfélagið.

Þegar um er að ræða starfsemi sem teygir sig yfir landamæri, eins og rafræn þjónusta gerir og ég fór rækilega yfir í minni framsögu, þá er augljóst að við þurfum að aðlaga reglur okkar að því. Það þurfa önnur lönd að gera líka. Reyndar er það þannig að allt er á fullri ferð í þeim efnum. Sumir telja að stjórnvöld og skattkerfin hafi verið allt of svifasein að bregðast við þeirri þróun. Því er haldið fram í mín eyru af mönnum sem sækja á um ívilnanir í þessum efnum að skattyfirvöld, ekki bara á Íslandi heldur almennt, séu of svifasein að aðlaga sig að þróuninni. En til lengri tíma litið hljótum við að vilja að eðlileg hlutdeild í arði eða verðmætasköpun sem hlýst af starfsemi sem hér er sannarlega til staðar skili sér til okkar.

Venjan í skattalegum samskiptum ríkja þegar svo ber undir er sú að menn deili með sér skatttekjunum, þ.e. ef fyrirtæki er með heimahöfn á tilteknum stað og er skattskylt í tilteknu ríki en er síðan með einhverja starfsemi annars staðar, þá gilda tilteknar reglur um hvernig skatttekjunum er deilt á milli þess hluta sem er utan heimalandsins og innan. Ef ekki eru klárar reglur í þeim efnum er byggt á prinsippum um tvísköttunarsamninga. Auðvitað þyrftum við að hugsa okkar gang ef þessi starfsemi gæti þá og því aðeins byggst upp á Íslandi með því skilyrði að vera alger skattaleg eylenda. Hvað er þá eftir í því? Jú, sala á rafmagni og einhver þjónusta sem alltaf verður en virðisaukinn sem eftir yrði í íslenska hagkerfinu yrði kannski miklu minni en við gætum sætt okkur við til frambúðar. Hér þurfa menn að stíga gætilega til jarðar. Því er ekki að leyna að við mundum skapa tiltekið fordæmi með úrlausnunum sem við fyndum fyrir fyrsta stóra fyrirtækið sem færi af stað á þeim forsendum. Það skiptir máli upp á framhaldið.

Varðandi eftirlitið tek ég að sjálfsögðu undir að við verðum að treysta varnirnar gagnvart ákveðnum hlutum. Því miður er það að ákveðnu og dapurlega gefnu tilefni að hluta til og snýr að því að aðilar sem áætlað er á, ár eftir ár, í stað þess að þeir skili inn skýrslum, geti ekki ástundað möguleg skattsvik í skjóli af því.

Varðandi endurgreiðsluna er það rökstutt í frumvarpinu. Ég fór yfir það í framsöguræðu hvers vegna það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði gengur eiginlega ekki upp lengur vegna breyttra aðstæðna. Ætlunin er sú að breytingin sé kostnaðarlega hlutlaus og ætlunin er ekki að hafa af henni tekjur í sjálfu sér heldur að útfæra með því fyrirkomulag sem iðnaðarráðuneytið hefur forræði á og snýr að sömu þáttum, sem er endurgreiðsla á kostnaði. En það þarf að sjálfsögðu að fara yfir það. Ég skal sjá um að það verði sérstaklega athugað hvar undirbúningurinn undir það er á vegi staddur. Ef það er ekki klárt og kerfisbreytingin er ekki tilbúin hinum megin frá, þá verð ég frekar að fella þennan þátt út úr málinu

Að lokum tek ég svo undir — eða tek kannski ekki undir, ég man ekki hvort hv. þingmaður tjáði sig um 100% endurgreiðsluna á endurbótum á byggingarhúsnæði. Ég vona að við séum sammála um að það sé skynsamleg ráðstöfun að halda því áfram, a.m.k. eitt ár í viðbót.