Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 14:28:23 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010. Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni og gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 5.403,5 millj. kr. til lækkunar gjalda. Meiri hlutinn gerir tillögur um hækkun tekna að fjárhæð 6.938 millj. kr. á rekstrargrunni.

Nefndin mun á milli 2. og 3. umr. kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka.

Í heild var afkoma A-hluta ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins neikvæð um 52 milljarða kr. samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar og ef þær breytingartillögur sem ég mæli nú fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga verða samþykktar verður niðurstaða ársins neikvæð um 58 milljarða kr. en það er engu að síður rúmum 40 milljörðum kr. betri útkoma en gert var ráð fyrir.

Samkvæmt fjárlögum ársins er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tæplega 99 milljarða kr. halla á árinu. Útkoman verður betri og því ber að fagna, en um leið er rétt að minna á að sá halli sem eftir stendur er gríðarlega mikill og hann er þungbær og hefur hamlandi áhrif á íslenskt samfélag. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að eyða þeim halla og snúa í afgang á sem skemmstum tíma í samræmi við áætlun um jöfnun í ríkisfjármálum.

Ég mun nú gera grein fyrir tillögum að breytingum við frumvarp til fjárauka ársins 2010.

Skattar á tekjur og hagnað verða hærri sem nemur 6.337 millj. kr. á rekstrargrunni. Skattar á vörur og þjónustu lækka um 309 millj. kr. og aðrir skattar lítillega þannig að í heild hækka skatttekjur um 6.208 millj. kr. Hvað aðrar greiðslur varðar hækka arðgreiðslur og leigutekjur um 695 millj. kr. frá frumvarpi um fjáraukalög eins og það var lagt fram. Heildartekjur hækka samtals frá frumvarpinu um 6.938 millj. kr.

Breytingartillögur við frumvarp til fjáraukalaga er snúa að útgjaldaliðum eru þessar helstar:

Það er gert ráð fyrir að greiddar verði úr ríkissjóði samtals 42,7 millj. kr. til æðstu stjórnar ríkisins, svo sem til Alþingis vegna launakostnaðar lögfræðings vegna vinnu þingnefnda við mál er varða bankahrunið, vegna kortlagningar sóknarfæra íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar, vegna uppsetningar tækjabúnaðar fyrir opna þingfundi og vegna þýðinga á hluta af rannsóknarskýrslu Alþingis, sérfræðiþjónustu fyrir stjórnlaganefnd og kostnaðar við störf saksóknara Alþingis og málarekstrar fyrir landsdómi.

Breytingar vegna mennta- og menningarmálaráðuneytis nema samtals 23,9 millj. kr. Það er vegna framlags til Keldna til að greiða kostnað af völdum nýrnaveiki í alifiskum, uppgjörs við Akureyrarbæ vegna viðbyggingar við VMA og framlags til Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar.

Einnig eru millifærslur af lið um ýmis framlög til Ríkisútvarpsins til að tryggja stafrænar hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingar alls 38 millj. kr. og heimild til Herhúsfélagsins á Siglufirði til að nýta styrk til uppbyggingar á gömlu Gránufélagsversluninni í stað Norðurgötu 5.

Vegna utanríkisráðuneytis er gert ráð fyrir breytingum sem lúta að því að fjárheimild verði lækkuð um 11,9 millj. kr. Það eru rúmar 4 millj. kr. til hækkunar vegna þýðinga á hluta rannsóknarskýrslu Alþingis og 16 millj. kr. lækkun til Útflutningsráðs í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtu tekna af markaðsgjaldi.

Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verði aukin um alls 19,2 millj. kr. sem er framlag til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs sem til kemur vegna ákvæða í lögum þar sem ákveðið hefur verið að úthluta 400 lestum af skötusel til viðbótar þeim 800 lestum sem forsendur frumvarpsins gerðu ráð fyrir.

Framlag til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins lækka um samtals 35,3 millj. kr. ef breytingartillögurnar ná fram að ganga en það er m.a. vegna lækkunar á fjárveitingum til sérstaks saksóknara um 37 millj. kr. Rekstrarumfang og fjárheimildir embættisins hafa nú verið endurmetnar þar sem forsendur hafa breyst. Meðal annars hætti sérstakur ráðgjafi, Eva Joly, störfum fyrr en ætlað var, auk þess sem útgjöld vegna starfa hennar reyndust lægri en ætlað var í fyrstu.

Við bætist síðan 1,5 millj. kr. vegna kostnaðar við að greina kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum.

Millifærslur eiga sér stað vegna nýrrar stofnunar, Þjóðskrár Íslands, en hún tók til starfa 1. júlí sl. Þar sameinuðust Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands. Þykir heppilegra að allar fjárveitingar hinna sameinuðu stofnana séu færðar á nýju stofnunina og hún gerð upp í einu lagi í ríkisreikningi.

Framlög til Kirkjumálasjóðs, safnaða þjóðkirkjunnar og Jöfnunarsjóðs sókna verða lækkuð um 8,2 millj. kr. en sóknargjöld til annarra trúfélaga verða hækkuð um 8,4 millj. kr. og þetta stafar af því að breyting hefur orðið á fjölda einstaklinga 16 ára og eldri á milli trúfélaga.

Lagt er til að fjárheimild félags- og tryggingamálaráðuneytis verði lækkuð um 2.844,6 millj. kr. Fyrir utan nauðsynlegar millifærslur er gert ráð fyrir að fjárheimild Framkvæmdasjóðs aldraðra hækki um 107,3 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um ríkistekjur af gjaldi til sjóðsins.

Vegna endurhæfingarlífeyris hefur átt sér stað endurmat vegna raunútgjalda sem liggja nú fyrir vegna janúar til nóvember og þær tölur gefa til kynna að útgjöld verði lægri sem nemur 100 millj. kr.

Sama á við um tekjutryggingu ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Rauntölur liggja fyrir vegna janúar til nóvember og því lækka fjárheimildir til tekjutryggingar ellilífeyrisþega um 390 millj. kr. og um 160 millj. kr. til tekjutryggingar örorkulífeyrisþega.

Endurmat áætlana á bótum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna gefa ástæðu til að lækka framlög um 12 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að sértekjur sem færast á liðinn Greiðslur frá vistmönnum öldrunarstofnana hækki um 557 millj. kr. Þessi leiðrétting hefur engin áhrif á greiðslur vistmanna á árinu heldur hefur farist fyrir hjá þeim ráðuneytum sem hafa haft umsjón með málaflokknum að uppfæra áætlanir til samræmis við raunverulega þróun greiðslna frá vistmönnum.

Lagt er til að fjárheimild vegna atvinnuleysisbóta verði lækkuð um 1.240 millj. kr. þar sem atvinnuleysi verður nokkru minna en eldri forsendur gerðu ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir 8,6% atvinnuleysi, en nú er áætlað að atvinnuleysi á árinu verði 8,1–8,2%. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir viðbótarheimild til aðgerða fyrir námsmenn og atvinnuleitendur yfir sumarmánuðina. Ljóst er að kostnaður vegna þeirra aðgerða rúmast innan upphaflegrar fjárheimildar og því er gerð tillaga um 268 millj. kr. lækkun.

Lögð er til 190 millj. kr. lækkun til Fæðingarorlofssjóðs með hliðsjón af endurskoðaðri spá um útgjöld á árinu og einnig er lækkun á fjárheimild til liðarins Foreldrar utan vinnumarkaðar um 35 millj. kr. vegna endurmats.

Vegna endurskoðunar áætlunar um hlutdeild Forvarnasjóðs í ríkistekjum af áfengisgjaldi hækkar fjárheimild sjóðsins um 1 millj. kr. Þetta er breytingartillaga er varðar heilbrigðisráðuneytið.

Í þeim breytingartillögum sem nú er mælt fyrir er lagt til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 1.110,8 millj. kr. og skiptist þannig að 16 millj. kr. verði millifærðar af aðalskrifstofu ráðuneytisins á liðinn Lánaumsýsla ríkissjóðs vegna samnings við Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu fyrir ríkissjóð.

Millifærð fjárheimild að upphæð 85,1 millj. kr. af liðnum Tollstjórinn yfir á liðinn Tæki og búnaður er vegna athugasemda Fjársýslunnar sem mælist til þess að gjöldin verði færð á stofnkostnaðarviðfangsefni í stað rekstrarviðfangsefnis, svo sem bílakaup og endurnýjun tækja.

Vegna endurskoðunar áætlunar um innheimtutekjur á tryggingagjaldi á liðnum Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða er lögð til um 138 millj. kr. lækkun.

Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður greiðir af vaxtatekjum, arði og söluhagnaði eigna lækki um 47 millj. kr. á rekstrargrunni og verði þar með 3.160 millj. kr. á árinu 2010. Gert er ráð fyrir því að greiðsla vegna fjármagnstekjuskatts hækki um 222 millj. kr. og verði 3.300 millj. kr. Fjármagnstekjuskatturinn færist einnig á tekjuhlið ríkissjóðs og hefur þessi breyting því ekki áhrif á afkomu ársins.

Lagt er til fjárheimild liðarins um ríkisábyrgðir verði hækkuð um 1.050 millj. kr. til að auka framlag til Ríkisábyrgðasjóðs vegna afborgana og vaxta af lánum sem voru með ábyrgð í lánasöfnum föllnu bankanna. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun hafa greiðslurnar verið vanáætlaðar sem því nemur í gildandi fjárlögum. Þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma hvíldu á þeim ýmsar skuldbindingar vegna skuldabréfa með ríkisábyrgð sem þá höfðu verið útgefin. Ríkið ber því enn ábyrgð á þeim skuldbindingum.

Lagt er til að veittar verði 250 millj. kr. til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar vegna fyrrum varnarsvæðis við Keflavíkurflugvöll. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 9. nóvember sl. að ráðast í framkvæmdir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll til þess að efla atvinnu á Suðurnesjum og flýta áætlunum um einstök verkefni. Þau verkefni sem til stendur að hrinda í framkvæmd og undirbúningur er langt kominn með eru frumkvöðlasetrið Eldey, frumkvöðlasetrið Eldvörp, hreinsun mengunar við Stafnes og á Patterson-svæðinu, endurbætur á íþróttamannvirkjum, lagfæring á íþróttavöllum og opnum svæðum, uppbygging endurhæfingaraðstöðu fyrir heilsuferðamenn, breytingar á fyrrum skotfærageymslu í atvinnuhúsnæði og gerð kvikmyndavers. Einnig verði Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar falið að setja á stofn hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið mundi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimsstyrjöld. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður umræddra framkvæmda geti numið um 1 milljarði kr. Til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingar á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við frekari framkvæmdir er lagt til að veittar verði aukalega um 250 millj. kr. til Þróunarfélagsins þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

Að lokum vegna framlaga fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 3,9 millj. kr. framlagi vegna kostnaðar af völdum nýrnaveiki í alifiskum sem millifærðar verði á lið Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, eins og áður sagði.

Í heild er lagt er til að fjárheimild til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins verði lækkuð um 10 millj. kr. Ástæðan er sú að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði vegna kostnaðar sem hlotist hefur af eldgosinu í Eyjafjallajökli, en jafnframt er gert ráð fyrir að sama fjárhæð verði millifærð af liðnum Ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu. Er því um að ræða framlög sem fyrir mistök voru lögð til í tvígang vegna sama verkefnis og er tillögu þessari því ætlað að leiðrétta það. Þess má geta að öll framlög vegna gossins í Eyjafjallajökli í frumvarpinu komu af liðnum Ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu.

Lagt er til að fjárheimild til iðnaðarráðuneytis verði aukin um samtals 26,7 millj. kr. og er það vegna lækkunar á framlagi til Staðlaráðs um 2,1 millj. kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtu tekna af tryggingagjaldi. Einnig er lagt til að veitt verði 28,8 millj. kr. framlag til liðarins Átak til atvinnusköpunar . Í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er m.a. gert ráð fyrir að fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011 hafi ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar hvort ár um sig allt að 2 þús. lestir af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni, heldur gegn greiðslu gjalds. Þá er gert ráð fyrir að þessi sömu fiskveiðiár hafi ráðherra einnig til ráðstöfunar allt að 200 lestir af óslægðum botnfiski á hvoru ári og gegn greiðslu sé heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til skipa sem leyfi hafa til frístundaveiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að á árunum 2010 og 2011 verði veitt framlag til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs sem svari til 40% af tekjunum og að Átak til atvinnusköpunar fái framlag sem svari til 60% af tekjunum. Í fjáraukalagafrumvarpinu er samtals 83,3 millj. kr. framlag veitt til liðarins samkvæmt þessari skiptingu. Nú hefur verið ákveðið að úthluta 400 lestum af skötusel til viðbótar þeim 800 lestum sem forsendur fjáraukalagafrumvarpsins gerðu ráð fyrir. Áætlað er að viðbótartekjurnar vegna þessa verði samtals 48 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir að Átak til atvinnusköpunar fái 28,8 millj. kr. framlag samkvæmt fyrrgreindri skiptingu. Gert er ráð fyrir að rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs og Átak til atvinnusköpunar fái framlag eftir sömu skiptingu og við leigu á skötuselskvóta. Áætlað er að tekjurnar verði samtals 42,8 millj. kr. á árinu 2010 og þar af fái rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs 17,1 millj. kr. Samtals er því hér um 55,5 millj. kr. framlag að ræða.

Lagt er til að fjárheimild efnahags- og viðskiptaráðuneytisins verði aukin um 10 millj. kr. vegna tímabundins framlags til verkefnis um athugun á skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórnin samþykkti 1. mars 2010 að ráðuneytið hefði forgöngu um. Frumvarp um málið var lagt fram á síðasta vorþingi en fékk ekki afgreiðslu þá og hefur verið lagt fram að nýju á yfirstandandi þingi. Megináhersla verður lögð á að afla nýrra gagna og meta stöðuna á grundvelli þeirra til að hægt verði að leysa bráðavanda á skuldastöðu heimilanna. Jafnframt verði þessi vinna skipulögð þannig að hægt verði að endurtaka ferlið með reglubundnum hætti, t.d. ársfjórðungslega næstu 1–3 árin, á meðan talin er þörf á jafnítarlegri eftirfylgni og nú er raunin. Gert er ráð fyrir að rannsóknin muni í heildina kosta allt að 50 millj. kr. Þar af yrðu 40 millj. kr. vegna launakostnaðar en gert er ráð fyrir tveimur starfsmönnum. Annar kostnaður er vegna hug- og vélbúnaðar, aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar og viðhalds og þróunar gagnagrunns. Miðað er við að rannsóknin geti hafist fyrir lok þessa árs og að kostnaður ársins verði um 10 millj. kr., einkum vegna stofnkostnaðar við vél- og hugbúnað.

Að lokum er lagt til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 3.736 millj. kr. Endurskoðuð áætlun um vaxtagjöld gerir ráð fyrir lækkun vaxtagjalda um 3,7 milljarða kr. frá frumvarpinu og er gert ráð fyrir að vaxtagjöld 2010 verði 70,3 milljarðar kr. Helstu breytingarnar eru að heldur betri vaxtakjör hafa fengist í útboðum vegna óverðtryggðra ríkisbréfa og ríkisvíxla en áður var áætlað og lækka vaxtagjöld um 1,8 milljarða kr. vegna þessa. Þar sem nær öllum áformuðum útboðum ársins er nú lokið er hægt að áætla vaxtagjöldin með meiri nákvæmni en í fyrri áætlunum. Þá lækka áætlaðir vextir vegna endurfjármögnunar bankanna um 1,4 milljarða kr. en ekki er gert ráð fyrir vaxtagreiðslum vegna sparisjóðanna á þessu ári. Aðrar breytingar vaxtagjalda eru minni. Greiddir vextir eru áætlaðir 75,8 milljarðar kr. og lækka því um rúmar 900 millj. kr. frá frumvarpinu. Þar munar mestu að kjör í útboðum ríkisvíxla hafa verið hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir og lækka greiðslur vegna þeirra um 1,3 milljarða kr. Greiðslur vaxta vegna endurfjármögnunar banka lækka um 0,8 milljarða kr. en á móti hækka greiðslur vaxta vegna gjaldeyrisforðalána um 1,8 milljarða kr. Aðrar breytingar eru minni.

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga og talað um almennt agaleysi í því sambandi. Framkvæmd fjárlaga hefur að mati Ríkisendurskoðunar verið ámælisverð um langan tíma en eins og stofnunin bendir á er það á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt. Leiða má líkum að því að miklar umframtekjur hafi ýtt undir agaleysið sem virðist hafa einkennt árið fyrir hrun er varðar útgjöldin. Hæstu tölurnar eru fyrir árið 2007 þar sem tekjur umfram áætlun námu 25% af áætluðum heildartekjum fjárlaga. Sú staða er aldeilis ekki uppi um þessar mundir og hefur agi við framkvæmd fjárlaga aukist til muna undanfarin tvö ár. Það hefur reyndar aldrei verið brýnna en einmitt nú þegar horft er í hverja krónu við ákvörðun útgjalda að taka fjármál ríkisins föstum tökum og fara vel með það fé sem ráðstafað er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Sú ábyrgð hvílir á Alþingi að fylgja eftir fjárlögum hvers árs.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns mun hv. fjárlaganefnd kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka milli 2. og 3. umr.