Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 14:47:18 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni yfirferðina. Ég ætla að gera athugasemdir við eitt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Það er ákveðin fullyrðing um að á fyrstu átta mánuðum ársins, með leyfi forseta:

„… var rekstur 64 stofnana umfram áætlun tímabilsins. Ráðuneytin telja líkur á að einungis þrjár þessara stofnana verði reknar umfram áætlun ársins í heild og gangi sú spá eftir, sem Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við, …“

Það er þetta sem mér finnst vera dálítið vel í lagt af hálfu meiri hluta nefndarinnar vegna þess að þegar þessi texti er tekinn upp úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga kemur þar fram að Ríkisendurskoðun hafi ekki forsendur til að leggja mat á það sem umfram er. Reyndar kemur líka fram í skýrslunni að tíu stofnanir hafi ekki skilað inn rekstraráætlun fyrir árið 2010. Mér finnst þetta vera slitið úr samhengi hjá meiri hlutanum og geri athugasemd við það.

Virðulegi forseti. Ég kem hins vegar upp til að spyrja hv. þingmann, út frá þeirri vinnu sem við höfum verið í saman í rúmt ár eða eitt og hálft ár, hver skoðun hennar sé og hvort hún geti verið sammála mér um að við þurfum að breyta vinnu fjárlagagerðarinnar, eins og á næsta ári þegar fjárlagafrumvarp verður lagt fram 1. október og strax boðaðar breytingar á því af sumum hæstv. ráðherrum. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér gerð fjárlaga fyrir árið 2012? Hvernig sjáum við þær breytingar sem við höfum margoft rætt í hv. fjárlaganefnd verða skilvirkari en þær hafa verið undanfarin ár og áratugi?