Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 14:50:56 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það eru jákvæð teikn á lofti um rekstur stofnana. Þær eru mun færri núna sem fara umfram heimildir en áður hefur verið. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut og náum utan um vandamálið í heild sinni.

Mig langar kannski að ítreka seinni spurningu mína áðan í sambandi við gerð fjárlaga. Ég veit allt um það að til stendur að fara í þá vinnu. Við sögðum líka fyrir einu ári að við ætluðum að fara í hana en gerðum það samt ekki. Því vil ég nota tækifærið og hnykkja á því núna að farið verði í þessa vinnu þannig að fjárlögin verði markvissari.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi séð það fyrir sér þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október að á sama tíma mundu ýmsir hæstv. ráðherrar boða breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem ekki væri einu sinni komið inn á borð fjárlaganefndar og ríkisstjórnin ætti eftir að samþykkja til að ná utan um vandamálið í heild sinni. Og hvað á það að þýða að vera með þjóðhagsspá frá því í júní? Fyrir tveimur dögum fengum við aðra þjóðhagsspá sem gefur því miður vísbendingar til verri vegar. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við munum breyta þessu þannig að það verði einhver árangur af vinnunni? Það gefur augaleið að það mun koma fyrirskipun frá hæstv. velferðarráðherra sem segir: Ég mun koma með breytingartillögur, það má ekki segja neinum upp. Ef það gengur eftir og ekki verða leiðréttar þær fjárveitingar til stofnananna sem eru í frumvarpinu munu þær ekki ná hagræðingunni nema fara í enn frekari uppsagnir, en þeim er ekki heimilt að fara í uppsagnir miðað við þær forsendur sem liggja fyrir. Það þekkja allir að fólk er með 3–6 mánaða uppsagnarfrest og ef ætlast er til þess að fjárhagsstofnanir haldi sig innan fjárlaga þá verður einfaldlega að segja fleirum upp til að ná settum markmiðum. Það er þetta sem ég er að kalla eftir hjá hv. þingmanni. Þurfum við ekki líka að setja stífa bremsu á framkvæmdarvaldið þannig að það virði tímamörk og vinnu fjárlaganefndar?