Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 16:07:09 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem lagt hefur verið fram varð ríkissjóður fyrir gríðarlegu áfalli haustið 2008 í kjölfar falls íslensku bankanna. Ríkissjóður sem nánast var skuldlaus tók þá á sig gríðarlegar skuldbindingar og skuldir og setti íslenska ríkið og íslensku þjóðina í allt aðra og verri stöðu en við höfum áður búið við. Erfiðleikarnir sem við okkur blöstu voru gríðarlegir sem birtust m.a. í miklu atvinnuleysi, skuldasöfnun heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga sem settu hlutina í allt annað samhengi en áður hafði verið. Þar við bættust langvarandi lausatök á ríkisfjármálum sem gerðu það að verkum að enn erfiðara var að bregðast við þessum miklu erfiðleikum sem við glímdum við. Þjóðin var almennt illa búin undir þetta áfall og ríkissjóður þar með talinn. Um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum enda hefur margoft verið rætt hér á þingi bæði um orsakir og afleiðingar sem við glímum við varðandi efnahagshrunið og fall bankanna. Litlu er við það að bæta.

Við erum samt komin óraveg frá þeim sporum sem við stóðum í árið 2009 þegar ríkisstjórnir Samfylkingar og Vinstri grænna tóku við. Ég tala nú ekki um þeim ósköpum sem við okkur blöstu árið 2008 við fall bankanna. Þær raddir heyrast í það minnsta ekki lengur í þessum sal að rétt sé að innlima íslenska ríkið í hinn svokallaða Parísarklúbb þjóða sem efnahagsleg örbirgð hrjáir hvað mest. Ég hef hvorki heyrt á það minnst úr þessum ræðustól né annars staðar úr samfélaginu frá því í fyrrasumar. Þó töluðu einhverjir af fullri alvöru, meira að segja hv. þingmenn sumir hverjir, um að við ættum að sækja um aðgöngu að þeim mikla og skemmtilega klúbbi.

Það er ekki lengur talað um þjóðargjaldþrot í dag. (ÞSa: Ó, jú.) Það er ekki lengur talað um uppgjöf fyrir verkefninu eins og svo oft var rætt um í þessum sal og spekingar í samfélaginu sem sáu yfirleitt enga leið út úr vandanum aðra en að fela okkur á vald annarra þjóða. Hér heyrist nú reyndar hv. þm. Þór Saari kalla fram í úr salnum „ó, jú“ og tekur þar með undir að hann óttist þjóðargjaldþrot. Ég er ósammála því. Við erum á allt öðrum stað en við vorum. Við erum á réttri leið. Við skulum sleppa því hverjum það er að þakka eða hverjum það er að kenna af hverju við erum ekki komin lengra. Við erum svo sannarlega á réttri leið eins og ræður þingmanna í dag hafa svo sannarlega fjallað um.

Efnahagsástandið er miklu betra en það var. Það er betra en því var spáð. Um það verður ekki deilt þó menn kunni að hafa ýmsar skoðanir á því eins og ég sagði áðan hverju er um að kenna og hverju er að þakka, eftir því hvernig á það er litið.

En eigum við samt ekki að vera sammála um þessa meginniðurstöðu og gleðjast yfir því að okkur hefur miðað í rétta átt? Er einhver ástæða til að gera minna úr árangrinum sem blasir við okkur? Þó vildum við öll vera laus úr þessum vanda nú þegar. Sá árangur hefur þó náðst í ríkisfjármálum að ríkissjóður, sem stefndi í hátt í 180–200 milljarða halla sumarið 2009, er nú kominn niður í hallarekstur upp á 58 milljarða eins og blasir við okkur í dag. Einhvern veginn hefur það nú gerst. Einhvern veginn tókst það samt sem áður. Þrátt fyrir að margt hafi lagst með okkur og annað hafi reynst okkur erfitt og tafið endurreisnina er ekki hægt að líta fram hjá því að margar aðgerðir sem við höfum gripið til í efnahagsmálum hafa skilað tilætluðum árangri. Sumt hefur gengið betur en áætlað var en sumt ekki eins og gengur og gerist.

Þetta þýðir þó ekki að verkinu sé lokið og ekkert óunnið á þessum vettvangi. Það er langt því frá að svo sé eins og meiri hluti fjárlaganefndar bendir á í nefndaráliti sínu og reyndar aðrir þingmenn hafa komið inn á í máli sínu í dag. Árangurinn sem hefur náðst þrátt fyrir allt og staðan sem við erum í er betri en áætlað var þrátt fyrir allt. Þetta á að hvetja okkur til dáða. Reka okkur áfram til að ná betri árangri og standa við áætlunina í efnahagsmálum sem við ætlum okkur að gera.

Næsta ár verður okkur mjög erfitt. Það mun að mörgu leyti ráða úrslitum um það hvernig okkur muni til takast við áframhaldandi uppbyggingu efnahagslífsins og byggja undir velferðarkerfið sem við viljum flest búa við hér á landi. Það mun kosta fórnir, við vitum það, og áframhaldandi erfiðleika, við vitum það. Erfiðleikarnir verða aldrei umflúnir hvort sem við ætlum að takast á við vandann í dag eða fresta honum. Með því að fresta honum aukum við á erfiðleikana og gerum það enn sársaukafyllra en það þarf að vera. Við þurfum að enda á því að eiga fyrir útgjöldum okkar.

Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum vorið 2009 stefndi hátt í 200 milljarða kr. halla ef ekkert yrði að gert. Það var ekki glæsileg aðkoma, hvorki stjórnvalda sem tóku við né nýrra þingmanna eða eldri sem settust í þennan sal eftir alþingiskosningarnar. Verkið er auðvitað okkar allra. Það var alveg ljóst að ef ekki yrði gripið til aðgerða mundum við lenda í fullkomnum ógöngum í ríkisrekstrinum með alvarlegum afleiðingum sem ekki þarf að fjölyrða um hér.

Strax um sumarið 2009, fljótlega eftir að ný ríkisstjórn var mynduð, var gripið til umfangsmikilla aðgerða, bæði við tekjuöflun sem og samdrátt í ríkisútgjöldum. Aðgerðirnar skiluðu umtalsverðum árangri auk þess lagðist eitt og annað með okkur sem var sem betur fer ekki fyrirséð. Þannig er það bara annað slagið.

Niðurstaða ársins 2009 var halli upp á 136 milljarða ef ég man rétt, innan við 140 milljarðar, í stað 188–200 sem að stefndi. Mun minni halli en blasti við þó gríðarlega há upphæð hafi staðið eftir á hallareikningnum. Halli upp á tæp 140 milljarða árið 2009 þýddi að ríkissjóður var rekinn með nærri 400 millj. kr. tapi á hverjum einasta degi ársins.

Í fjárlögum ársins í ár var lagt upp með rétt um 100 milljarða kr. halla eins og margoft hefur komið fram í dag sem er ígildi þess að ríkissjóður sé rekinn með rétt tæplega 300 millj. kr. halla á hverjum degi. Þetta mikla tap og það sem á undan hafði gengið getur ekki haldið áfram. Það sér hver maður og undirstrikar nauðsyn þess að halda fast í áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum, þó það kunni að kosta tímabundnar óvinsældir eða jafnvel ævarandi óvinsældir þeirra sem þurfa að taka ákvarðanirnar. Hér er ekki um einstaklinginn að ræða, heldur er þjóðin öll undir. Þetta er hafið yfir einstaklingsvinsældir eða tímabundnar aðgerðir. Þetta eru aðgerðir sem þurfa að standa.

Á niðurskurðarhliðinni hefur verið farið í aðgerðir til að draga úr útgjöldum ríkisins. Þar sem lögð hefur verið meiri áhersla á að verja heilbrigðis-, félags- og menntamál í tvígang, bæði við fjárlög við upptöku gildandi fjárlaga ársins 2009 sem og við fjárlagagerð fyrir árið 2010 þar sem gerð hefur verið minni krafa á félagslega hluta ríkisrekstrarins en annars staðar — helmingi minni krafa.

Aðgerðirnar sem hafa hins vegar snúið að því að afla ríkissjóði meiri tekna hafa verið umdeildar og falist í margvíslegum tekjuaflandi aðgerðum, skattahækkunum og fleiru slíku sem ég ætla að gera að umfjöllunarefni mínu. Ég vitna þá, með leyfi forseta, í áfangaskýrslu starfshóps um breytingar og umbætur í skattkerfinu sem skilaði í haust þessari áfangaskýrslu um árangur sem náðst hefur í þeim skattbreytingum sem gripið hefur verið til

Aðgerðir sem gripið hefur verið til eru hækkun tekjuskatts, hækkun tryggingagjalds, vörugjald á gjaldskrárhækkanir, hækkun á efra þrep virðisaukaskatts, upptaka nýrra skatta, svo sem auðlegðarskatts, umhverfis- og auðlindaskatts auk þess sem séreignarsparnaður hefur skilað umtalsverðum tekjum bæði til ríkis og sveitarfélaga. Um þetta segir, með leyfi forseta, í áðurnefndri skýrslu, áfangaskýrslu starfshóps um breytingar og umbætur í skattakerfinu:

„Við gerð áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum var grunnlínan miðuð við áætlun AGS um hver þróun ríkisfjármála yrði ef ekki yrði gripið til aðhaldsaðgerða. Var í þeirri áætlun og í aðgerðaáætluninni fyrst og fremst unnið með frumgjöld og frumtekjur þar sem stjórnvöld geta breytt þeim stærðum með ákvörðunum sínum en vaxtagreiðslur og þar með heildarjöfnuður eru afleiddar stærðir.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Tekjur ársins 2009 reyndust nokkuð hærri en áætlað hafði verið vegna þess að ráðstafanir í tekjuöflun ríkisins skiluðu sér vel og eins reyndist fall VLF minna en áætlað hafði verið. Hækkun tekna á árinu 2009 frá grunnáætlun AGS reyndist vera 1,6% og áætlað er að á árinu 2010 verði hækkun frá grunnáætlun orðin 2,3%“ frá því sem áætlað var.

Samkvæmt niðurstöðum sem lesa má úr skýrslunni hefur tekist vel í heildina, þ.e. tekjujöfnunaraðgerðir sem gripið var til, hafa tekist vel. Þær hafa skilað árangri, þó sumar séu enn undir áætlun meðan aðrar eru yfir. Ég ætla að hlaupa örstutt yfir helstu aðgerðir sem gripið var til til að útskýra það.

Varðandi tekjuskatt á einstaklinga var áætlað að 8% hátekjuskattur og 5% skattur á háar fjármagnstekjur sem lagður var á seinni hluta ársins 2009 mundi skila 2,6 milljörðum í tekjuauka. Sú spá gekk eftir. Nýtt þriggja þrepa kerfi sem tekið var upp 2010 var talið að mundi skila um 15 milljörðum í tekjuauka. Innheimtur tekjuskattur í staðgreiðslu hefur aukist um 4,6 milljarða, eða 11,2% á fyrri helmingi árs en er samt sem áður undir áætlun. Þess er að gæta að heildaráhrif munu ekki liggja fyrir fyrr en við álagningu árið 2011.

Í fjárlögum 2010 var reiknað með að nýr auðlegðarskattur mundi skila 3,5 milljörðum á árinu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra nam álagning hans 3,8 milljörðum, aðeins yfir því sem áætlað var. Ekkert bendir til annars en þessi tekjuöflun muni ganga eftir á yfirstandandi ári, þ.e. 2010.

Önnur gjöld líkt og bensíngjöld sem voru hækkuð á árinu 2009 hafa skilað sér inn á því ári og munu halda í horfinu það sem af er ársins. Sama á við um olíugjald og umhverfis- og auðlindagjöld sem virðast ætla að halda í horfinu frá því sem var á árinu 2009 fram til ársins 2010.

Virðisaukaskattur sem í ársbyrjun 2010 kom til framkvæmda, þ.e. almenn hækkun á virðisaukaskattsþrepinu úr 24,5% í 25,5% skilaði ríkissjóði 4 milljörðum kr. viðbótartekjum á heilu ári. Fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs eru skil á virðisaukaskatti tæplega 3% yfir áætlun og ekkert sem bendir til þess að hækkun hlutfallsins hafi ekki skilað sér.

Virðulegi forseti. Í skýrslu hópsins segir almennt um skattbreytingarnar sem hefur verið gripið til varðandi tekjuöflunarhliðina að samanlagt hafa þær tekjuöflunaraðgerðir sem gripið var til á árunum 2009 og 2010 nokkurn veginn gengið eftir þótt frávik sem gangi í báðar áttir sé að finna varðandi einstaka tekjustofna. Það er ljóst að þrátt fyrir þá gagnrýni sem höfð hefur verið uppi varðandi tekjuöflunarleiðirnar sem sannarlega var ekki farið í að gamni sínu, ríkisstjórnin og Alþingi tók þessar ákvarðanir ekki bara til að taka þær. Það var ekki lagt upp með að hafa þetta í einhverjum flimtingum, það var ástæða til þess að afla ríkinu tekna. Ríkissjóður hafði orðið fyrir miklu tekjutapi og það varð að ná því upp á móti því að draga úr útgjöldum.

Ásamt því að afla ríkinu tekna með breytingum á skattkerfinu, bæði með hækkun skatta og upptöku nýrra skatta, var áætlunin og markmiðið ekki síður að bæta skattkerfið. Gera það eins og núverandi stjórnarflokkar vilja standa fyrir, þ.e. jafnræðis verði gætt í skattlagningu og skattbyrðin dreifist á skattborgara með sanngjarnari hætti en gert hefur verið fram til dagsins í dag. Fram til síðasta árs réttara sagt. Jafna tekjudreifingu í þjóðfélaginu, stuðla að félagslegum markmiðum og tryggja félagslegt öryggi. Tryggja þjóðinni ekki síst mesta hlutdeild í arði auðlinda hennar. Þessum málum hefur ekki verið sinnt á undanförnum árum og áratugum. Skattkerfið var orðið flatt og ómarkvisst og skilaði ekki þeim árangri sem til var ætlast. (Gripið fram í.)

Ég segi þetta og fjalla um þetta, virðulegi forseti, til að minna á að náðst hefur árangur við rekstur ríkisins. Auðvitað er það líka þannig, eins og ég hef bent á áður og fleiri hafa nefnt, að ýmislegt hefur lagst okkur til við endurreisn efnahagslífsins. Þó það nú væri. Þó svo að okkur finnist við glíma við eilíf vandræði frá degi til dags, eldgos og hrun í loðnuveiðum og fleira slíkt sem hefur verið að hrjá okkur sem hefur svo sannarlega ekki gert okkur hlutina léttari en þeir þurftu að vera. Sem betur fer fellur eitt og annað með okkur. Þannig er lífið einu sinni og sem betur fer. Okkur hættir þó stundum til að festast í því sem miður fer en því sem vel tekst upp. Auðvitað eigum við að fagna því þegar vel tekst til.

Sala eigna umfram það sem áætlað var í fjárlögum hefur hjálpað verulega til. Þar vega þyngst tekjur vegna Avens-samkomulagsins sem allir ræðumenn hafa rætt um í þessari umræðu. Ég ætla ekki að fara inn í þá umræðu frekar, það hefur margoft komið fram í hverju það felst. Allt þetta leggst auðvitað með okkur í þeirri baráttu sem við eigum við að etja að reisa efnahagslíf landsins við. Að sjálfsögðu eigum við að gleðjast yfir því þegar blæs í seglin, jafnvel þótt tímabundið sé, svo framarlega sem við þokumst í rétta átt.

Við eigum ekki heldur að tæta niður það sem vel hefur tekist til, stjórnvaldsaðgerðir sem hafa leitt til þess að við stöndum betur að vígi en við gerðum áður en lagt var af stað. Það ber ekki síður að gleðjast yfir árangrinum sem stjórnendur og forstöðumenn stofnana ríkisins hafa náð við rekstur stofnana sinna. Eins og fram hefur komið hefur stofnunum sem farið hafa umfram fjárheimildir fækkað umtalsvert. Af þeim fjárlagaliðum sem skilgreindir hafa verið veikastir í upphafi ársins hefur ríflega helmingi þeirra tekist að halda sig innan fjárlagaheimilda sem þeim var sniðinn og ber að fagna því. Öll ráðuneyti utan heilbrigðisráðuneytisins eru innan settra marka um rekstur og útgjöld sem er mun betra en þekkst hefur til margra ára. Þetta sýnir glöggt getu og metnað sem starfsmenn ríkisins, stjórnendur, embættismenn og annað starfsfólk hefur til að koma böndum á rekstur stofnana sinna.

Árangur næst ekki nema allir leggist á árarnar og rói í sömu átt. Það gerum við flest held ég þó róðrarlagið megi stundum vera betra. Ekki síst ber að þakka fjárlaganefnd og þeim sem hafa starfað þar, bæði í ár og á síðasta ári, og þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin og viðhorfinu sem endurspeglast í störfum þeirra sem þar sitja gagnvart þessu verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Ég leyfi mér að fullyrða að þrátt fyrir minni hluta og meiri hluta og flokkadrætti sem koma oft upp er markmiðið okkar það sama. Okkur kann að greina á um leiðir en við erum einhuga um markmiðið sem betur fer. Þá óttast ég ekkert að við munum ná því sem við ætlum okkur eins og kemur fram í frumvarpinu til fjáraukalaga sem við ræðum í dag. Það er til vitnis um að við höfum flest með einum eða öðrum hætti reynt að leggjast á árarnar og róa í sömu átti. Við höfum reynt að leggja okkur fram um að ná árangri. Við eigum hvorki að draga úr okkar hlut í þeim ágæta árangri sem náðst hefur né gera of mikið úr honum, við skulum ekki gera það heldur. Við skulum tína til það sem vel hefur tekist og við skulum læra af því sem miður hefur farið og leggja upp í erfiðan leiðangur sem fram undan er á næsta ári og við fjárlagagerð næsta árs með það að leiðarljósi að vera raunsæ í verkum okkar. Þá mun okkur farnast vel eins og mér finnst við vera að gera og frumvarpið sem hér er til umræðu vitnar um að mínu mati.