Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 16:27:09 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var nánast að öllu leyti mjög málefnaleg. Ég staldra hins vegar við tvennt. Annars vegar gerir hv. þingmaður mikið úr þeim árangri sem náðst hefur með skattahækkunum. Ég geri mér grein fyrir því að ég get ekki rætt þær hér þar sem við erum afar ósammála um þær leiðir. Það kemur fram í fjáraukalögunum að tekjuskattur á einstaklinga er að dragast saman um 5,1 milljarð og bæta þarf við vaxtabætur upp á tæpa 1,8 milljarða. Í ljósi þess langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður hafi ekki töluverðar áhyggjur af stöðu fjölskyldnanna í landinu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að við séum búnir að taka of mikið af ráðstöfunartekjum fjölskyldnanna en okkur berast fréttir alla daga um ástandið hjá fjölskyldunum.

Hins vegar kemur líka fram í fjáraukalagafrumvarpinu að gerðar eru breytingar um 4 milljarða í tekjubótunum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í gagnvart þessum tveimur veiku hópum, ef ég má nota það orð — staða þeirra er yfirleitt mjög bágborin, þó ekki allra — miðað við það sem ríkisstjórnin ætlaði sér þá er búið að skerða um 4 milljarða í viðbót hjá þessum hópi.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því að við séum að ganga of hart fram gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum miðað við þær hugmyndir sem menn höfðu í upphafi og einnig af stöðu fjölskyldnanna. Það kemur mjög skýrt fram að það vantar 5,1 milljarð upp á tekjuskatt einstaklinga. Um það gerir meiri hlutinn breytingartillögu.