Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 16:29:16 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Vissulega hef ég áhyggjur af fjölskyldum þessa lands, skuldugum fjölskyldum, þeim sem eiga við erfiðleika að etja, atvinnuleysi og annað slíkt. Vissulega hef ég áhyggjur af því, þó það nú væri. Ég er fjölskyldumaður sjálfur. Börnin mín glíma við þessa erfiðleika rétt eins og hverjir aðrir í landinu, eins og allir aðrir sem tengjast háttvirtum þingmönnum sem sitja hér í þessum sal og þeim 63 sem hingað voru kosnir. Auðvitað höfum við áhyggjur af því. Auðvitað höfum við áhyggjur af því hvort gengið er of hart fram gegn íbúum þessa lands, nóg er nú samt sem á fólk er lagt.

Tekjuskattur dregst saman og er undir áætlunum, það er áhyggjuefni. Það er fyrst og fremst áhyggjuefni vegna þess að tekjur eru að lækka. Tekjur hafa lækkað umfram það sem við áætluðum. Við höfum reynt að ná í meiri tekjur með hækkun tekjuskatts en af þeim sökum hefur það ekki gengið eftir.

Vaxtabæturnar aukast vegna þess að tekjurnar eru að lækka, það eru fleiri sem fara undir þau mörk sem vaxtabætur miðast við. En að bæta í vaxtabæturnar er þó aðgerð til að koma til móts við það fólk, eins og gert er í frumvarpi sem við ræðum hér og verður væntanlega gert í fjárlagafrumvarpinu sem við eigum eftir að afgreiða á þinginu.

Það er algjörlega hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, við eigum að hafa áhyggjur af þeim erfiðleikum sem fjölskyldur í landinu eiga við að etja. Við eigum alltaf að hugsa um hvort verið sé að ganga of langt gegn rétti þeirra, án þess að lofa því að ekki verði um erfiðleika að etja um alllanga hríð héðan í frá, því þannig mun það nú einfaldlega verða. (Forseti hringir.)