Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 16:36:01 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:36]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjáraukann svokallaða eða heimildir vegna fjáraukalaga fyrir árið 2010. Það má ýmislegt um þetta segja og hafa um þetta langt mál, það hefur að vísu flest allt komið fram sem máli skiptir í ræðum hv. þingmanna á undan mér. Það sem sést skýrt er að hér er unnið að gerð fjárlaga við miklar óvissuaðstæður og það hefur verið svo undanfarin ár og e.t.v. er það að mörgu leyti skiljanlegt að fjáraukalögin þurfi að taka mið af því vegna þess að sjaldan hefur verið meira óvissuástand í efnahagsmálum hér en undanfarin ár. Ég er ekki endilega sammála meiri hluta fjárlaganefndar um árangurinn. Það er auðveldi hlutinn að horfa á debet- og kreditdálkana í fjárlögunum. Þar er ekki tekinn með sá kostnaður sem fylgir niðurskurðinum, þ.e. öllu því fólki sem ber skarðan hlut frá borði, missir atvinnuna, lækkar í launum eða þarf að flytja úr landi. Það er erfitt að reikna slíkt tjón inn í fjárlög eða fjáraukalög en að tala um fjárlögin sem góðan árangur er til of mikils mælst að mínu áliti.

Ég ætla að tæpa hér á einu sérstöku atriði í fjáraukalögunum sem mér finnst þurfa að ræða betur og fjalla betur um á vettvangi fjárlaganefndar. Það er sá kostnaður sem er að byrja að falla til núna og er vegna þeirra ríkisábyrgða sem voru á sumum skuldum bankanna þegar þeir voru einkavæddir, ríkisábyrgðir sem fylgdu lántökum Landsbankans og Búnaðarbankans og fylgdu lánunum þegar þeir voru seldir. Einnig er um að ræða einhverjar ríkisábyrgðir á lánum sem voru í Glitni og svo skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins en einkavæðingarsinnunum góðu hugnaðist einnig mjög að sá sjóður yrði einkavæddur á sínum tíma og hann var seldur Landsbankanum. Þetta er bara til marks um það að auk kreppunnar glímum við enn við afleiðingar einkavæðingaræðisins sem hér ríkti og var framkvæmt af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og við súpum nú seyðið af. Mörgum var óskiljanlegt hvers vegna fyrirbæri eins og t.d. Lánasjóður landbúnaðarins var einkavæddur, og það hefur enn ekki komið í ljós hvers vegna þær skuldir sem voru með ríkisábyrgðunum voru skildar eftir í gömlu bönkunum við flutninginn yfir í nýju bankanna. Þetta er eitthvað sem við munum óska eftir upplýsingum um áður en kemur að framhaldsumræðu um fjárlögin vegna þess að hér er um að ræða umtalsverðar upphæðir á næstu árum sem munu geta fallið á ríkissjóð. Að mínu mati er skylt að það verði upplýst með mjög skýrum hætti hvers vegna þau útgjöld eru komin til en þau eru komin til vegna þeirrar einkavæðingar sem fór fram. Það verður að halda því til haga eins og kostur er hvað hún hefur kostað og mun kosta samfélagið inn í framtíðina. Nánari sundurliðanir á þessum liðum munu því vonandi liggja fyrir fljótlega. Við munum óska eftir því formlega ef með þarf.

Annað sem hér hefur verið talað um og er mjög mikilvægt atriði og hv. þm. Björn Valur Gíslason tæpti á er langtímastefna í fjárlögum. Það er mjög mikilvægt líka að stofnanir geti gert ráð fyrir til lengri tíma en árs í senn þeim fjármunum sem þær fá úthlutað. Þetta hefur komið mörgum stofnunum mjög illa, en því hefur oft verið haldið á lofti að þessar stofnanir líði fyrir það á fjárlögum að þær hegði sér á einhvern hátt pólitískt óæskilega. Hér þarf að vera ákveðinn lagarammi um það hverjar fjárveitingar eru til stofnana a.m.k. fimm ár fram í tímann með einhvers konar bráðabirgðaákvæðum um að þær megi víkja út af því vegna sérstakra ástæðna eða eitthvað svoleiðis. Hér hef ég kannski fyrst og fremst í huga mikilvægar stofnanir sem standa vörð um lýðræðið eins og t.d. Ríkisútvarpið, að í þeim hrærigraut sem íslenskir fjölmiðlar eru í í dag er hlutverk Ríkisútvarpsins í lýðræðislegu umræðunni mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Við sáum það í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþingsins hvernig stofnunin getur í raun ekki sinnt hlutverki sínu nema með einhverjum bráðabirgðaatriðum eða dagskrá sem er hrist fram úr erminni á síðustu dögum fyrir kosningar.

Ég fagna því, og mun í framhaldinu leggja meiri áherslu á það innan fjárlaganefndar, að það verði skoðað með hvaða hætti langtímastefna í fjárlagagerð fer fram í nágrannaríkjunum. Það er ekki alltaf best að gera hlutina eins og við höfum gert þá á Íslandi. Það hefur komið okkur rækilega í koll að halda það. Og það eitt og sér ef næst að koma skikki á langtímaáætlanir ríkissjóðs í fjárlögum mun leiða til meiri stöðugleika í efnahagsmálum hér en verið hefur hingað til.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um fjáraukann. Við munum útskýra betur afstöðu okkar til fjárlaganna þegar þau koma fram fyrir næsta ár. Þar er enn þá um að ræða, eins og hér í fjáraukanum, vanáætlanir í skattamálum og gjaldamálum. Það eru áætlanir sem hægt er að lagfæra án þess endilega að láta almenning í landinu bera þær byrðar, það má ná í það fé annars staðar. Við munum því koma fram með breytingartillögur á þeim vettvangi.