Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 17:03:56 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég kem kannski svona í almenna athugasemd. Ég tek undir með hv. þingmanni að nauðsynlegt er að gæta aðhalds og ná jafnvægi í ríkisbúskapnum og þess vegna langar mig að forvitnast aðeins um viðhorf viðkomandi þingmanns til aðhaldsaðgerða, hvernig við getum náð betri árangri í niðurskurðinum. Vill hv. þingmaður horfa til niðurskurðar í yfirstjórn? Eru það utanríkismálin? Er það búvörusamningurinn, að auka samkeppni í sölu á búvörum? Mér þætti vænt um að heyra ákveðnar hugmyndir hv. þingmanns vegna þess að í þessum sal hefur maður heyrt þingmenn koma fram og kvarta undan leiðum til tekjuaukningar, kvarta undan því að við séum að reyna að auka tekjurnar, kvarta undan því að við séum að beita óvinsælum aðhaldsaðgerðum, kvarta undan því að ekki sé hægt að ganga nær heimilum og fyrirtækjum í landinu. Ég spyr þá: Hverjir eiga að borga skattana ef það eru ekki heimilin eða fyrirtækin? Þeir koma hér upp og krefjast þess að aðhalds sé gætt í ríkisfjármálum, krefjast þess af okkur, sem berum þann kaleik að þurfa að taka við ríkisbúskapnum með 180–200 milljarða halla, að við þurfum að fara í þessar óvinsælu aðgerðir. Ég skora á þingmenn alla að koma með raunhæfar hugmyndir um hvernig við eigum að fara að í verkefninu.

Þingmaðurinn bendir á það vissulega að um er að ræða einskiptisaðgerðir sem bæta stöðuna um 40 milljarða kr. Það er minni greiðsla vaxtakostnaðar og það er Avens-samningurinn. En meðal þeirra hugmynda sem sjálfstæðismenn flögguðu hér við afgreiðslu þessara fjárlaga var sömuleiðis einskiptisaðgerð eða skattlagning séreignarsparnaðar. Horfa sjálfstæðismenn enn á þá aðgerð til að rétta af fjárlagahallann? Er það ekki dæmi um einskiptisaðgerð sem við getum ekki horft til við núverandi stöðu?