Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 17:10:00 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að bera af mér sakir þar sem hv. þingmaður heldur því fram að við sjálfstæðismenn séum allt að því 95% sammála því sem ríkisstjórnin er að gera, það er ekki svo. (Utanrrh.: Þú sagðir það.) Nei, ég sagði það ekki neitt, hæstv. utanríkisráðherra, þó að þú vonir sannarlega að það sé með þeim hætti.

Ég hugsa að það væri óhætt að snúa þessu við, að það væru svona um það bil 5% sem við værum sáttir við af því sem ríkisstjórnin er að gera. En hvað um það, við skulum ekki detta niður í þessa umræðu. Það sem ég sagði var einfaldlega það að ef við næðum að taka út þessar pólitísku deilur um hvað þetta þýddi, hvort sem það eru skattahækkanir eða hvað það er, þá var ég að tala um niðurskurðinn. Ég var að vísa til þess. Og ég vil bara rifja það upp fyrir hv. þingmanni, ég tel að það hafi ekki verið gert oft og sennilega aldrei, enda sögðu það margir við mig þegar við lögðum til, við sjálfstæðismenn, við þóttumst vera að sýna mjög ábyrga afstöðu í fyrra og sögðum við stjórnarmeirihlutann: Við skulum koma í þá vegferð með ykkur að skera niður um 8 milljarða til viðbótar. Þá hefðum við að sjálfsögðu farið að verja niðurskurðartillögurnar. Og það er alrangt sem hv. þingmaður segir að við sem ætlum að taka séreignarsparnaðinn til þess að taka halla ríkissjóðs. Það er ekki rétt. Við höfum aldrei sagt það og munum aldrei segja það. Við erum algerlega sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það verður að ná niður halla ríkissjóðs. Það eru aðrir þingmenn hér inni sem hafa haldið því fram, ekki í Sjálfstæðisflokknum heldur í öðrum flokki, að það væri hægt að fara þá leið sem hv. þingmaður heldur og hefur misskilið að við viljum fara. En það er ekki rétt, við höfum aldrei viljað það og það verður að horfast í augu við þetta. Því miður var þessu tilboði hafnað og það hefði verið betur gert að fara í það frekar en niðurskurð. Þá hefðu menn sest yfir verkefnið í heild sinni og ákveðið hvað hægt væri að gera og lagt þá allt inn í púkkið saman. Ég er ekki fjarri því að við hefðum getað náð niðurstöðu í það að mestu ef ekki öllu leyti hvernig ætti að gera það. Ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram, enda væri það mjög óskynsamlegt að fara í samstarf og samvinnu um einhver ákveðin verkefni ef menn gæfu sér forsendurnar fyrir fram um að menn mundu ekki ná samkomulagi. Þetta er alveg klárt í mínum huga.