Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 17:12:11 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[17:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég brá mér aðeins fram eftir að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hóf ræðu sína og kom inn nokkrum sekúndum síðar en ég hélt hreinlega að það væri búið að skipta um umræðuefni miðað við tóninn sem var í ræðunni hjá hv. þingmanni þar sem var talað um einhvers konar fálm og kukl út í myrkrið og enginn vissi hvað væri að gerast.

Ég reyndi að fara mjög skýrt yfir það áðan hvernig sala eigna hefur haft áhrif á bætta stöðu ríkissjóðs og lægri vextir. En var það ósjálfrátt? Gerðist það óvænt? Var það eitthvað sem datt af himnum ofan eða gaus upp úr jörðinni og enginn átti von á? Hvort kom á undan hænan eða eggið í þessu sambandi hjá hv. þingmanni? Getur það verið að lægri vextir og lægri vaxtagreiðslur séu afleiðing stjórnvaldsaðgerða eða er það eitthvað sem spratt upp úr jörðinni eins og ég sagði áðan?

Auðvitað er það svo að þær aðgerðir sem hefur verið gripið til — og það er ekki hægt að neita því, ég fór svo vel yfir það áðan með hv. þingmanni og því var ekki mótmælt — hafa, margar hverjar, skilað þeim árangri að við erum ekki að greiða hærri vexti og höfum ekki þurft að taka öll þau lán sem stóð til að við þyrftum að taka í upphafi árs. Að sjálfsögðu er það þannig.

Ég spyr hv. þingmann: Veit hægri höndin hvað hin hægri höndin er að gera í Sjálfstæðisflokknum? Hvað er að gerast á erfiðum niðurskurðartímum? Ég hljóp fram áðan þegar ég missti af stefnubreytingunni í ræðu hv. þingmanns, og hér liggja fyrir að mér skilst ein 10 eða 12 frumvörp eða þingsályktunartillögur og hv. þingmaður er á þeim flestum, (ÁsbÓ: Nei.) allmörgum í það minnsta, sem kveða á, held ég, allar um aukin ríkisútgjöld, um aukin ríkisútgjöld á þessum erfiðu tímum sem hlaupa vel á annan milljarð króna. Hvað er eiginlega að gerast á þessum erfiðu niðurskurðartímum sem hv. þingmaður nefndi áðan? Er hann í orði á annarri leið en hann er á borði?