Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 29. nóvember 2010, kl. 15:50:18 (0)


139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:50]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða fjárveitingu til Hólaskóla, Háskólans á Hólum, upp á 5,5 millj. kr. til að mæta fjárhagslegu tjóni sem skólinn varð fyrir vegna hestaveikinnar sem geisaði í fyrra eins og við munum öll. Er hið besta mál að það sé gert. Ástæðurnar sem taldar eru upp eru að aflýsa hafi þurft sumarskóla og það hafi þurft að hugsa um veik hross. Eins ég segi er það hið besta mál en ég verð að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að greiða þessari tillögu atkvæði mitt og hef því ákveðið að sitja hjá vegna þess að hér er ríkið í samkeppnisrekstri við heila atvinnugrein sem var tekjulaus svo mánuðum skipti vegna þessarar umræddu pestar með afar takmörkuðum stuðningi. Mér finnst þetta óeðlilegt og hef því ákveðið að sitja hjá.