Greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

Þriðjudaginn 30. nóvember 2010, kl. 15:22:36 (0)


139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:22]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Það er þannig, hv. þingmaður, við segjum nánast öll það sama. Ég vil lýsa ánægju minni með þau vinnubrögð sem viðhöfð voru hjá nefndinni við það að taka málið aftur inn milli 2. og 3. umr. og skila framhaldsnefndaráliti. Ég tel að þau vinnubrögð mætti hafa til fyrirmyndar í öðrum nefndum.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan um að nefndin þyrfti að fylgja þessu eftir. Hv. formaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom líka inn á það áðan að þau fengu umboðsmann skuldara á sinn fund og fóru yfir málin. En ég tek undir það sem margir hafa bent á úr þessum ræðustól, ekki bara í þessu máli heldur líka öðrum, í ljósi þess hvernig ástandið er varðandi skuldavandamál heimilanna og annað, að mörg af þeim lögum og ýmislegt annað sem kemur frá þinginu er því miður unnið í miklum flýti. Þingið verður því að fylgja málum eftir á þann hátt sem það getur best og hafa eftirlit með því og bregðast fljótt við eins og gert var í þessu tilviki, þegar laga þarf og bæta.