Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 18:38:22 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunnurinn að þessum gjörningi liggur í neyðarlögunum. Fjármálaeftirlitið gefur út í október 2008 hvernig færa skyldi inn innstæðurnar úr gamla bankanum sem voru ríkistryggðar yfir í nýja bankann og innlendar eignir þar á móti þar sem gert var ráð fyrir að — þetta er nákvæmlega útskýrt í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu, þar er þetta svona. Það var gert ráð fyrir að nýju bankarnir væru með innlenda starfsemi. Það sem var á milli innstæðnanna og innlendu eignanna sem fært var á milli, þ.e. mismunurinn, var greiddur af ríkissjóði. Eftir stóðu aðrar skuldir en innstæður, þar á meðal skuldabréf með ríkisábyrgð.

Það er alveg ljóst að þarna eru skuldbindingar ríkisins á ferðinni, það er algjörlega ljóst í mínum huga. Staðan er þannig núna hvort sem þarna hafa verið gerð einhver mistök á leiðinni, hvort það varðaði einkavæðingu bankanna eða 2005 eða við fall bankanna. Þá er staðreyndin sú að þessi skuldbinding stendur eftir og hún er skuldbinding ríkisins og hana þarf að fara með eins og aðrar skuldbindingar ríkisins. Þess vegna finnst mér eðlilegt og rétt og ég er sannfærð um að það er samkvæmt góðum reikningsskilareglum að færa skuldbindinguna yfir í efnahagsreikning eins og aðrar skuldbindingar ríkisins. Afborganirnar fari þá í gegnum efnahagsreikninginn eins og gert er með annað og vextirnir svo í gegnum rekstrarreikninginn.