Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 18:47:26 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki þannig að sjóðstreymið sé einhver sjálfstæð stærð sem ekki verði fyrir áhrifum þegar gerðar eru breytingar á efnahagsreikningi. Mikill misskilningur er að halda að það haldist ekki í hendur. Látum það eiga sig. Ég heyri að sá ágreiningur hefur þegar verið mjög mikið ræddur í fjárlaganefnd.

Það er samt nauðsynlegt fyrir mig að fá svar við seinni spurningu minni. Ég heyri að það er alls ekki ljóst hvað þarf mikla peninga í Íbúðalánasjóð vegna aðgerða við skuldavanda heimilanna. Ég þarf að fá svar við því hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur hver hún telur að fjárbinding ríkissjóðs gæti orðið vegna vaxtabótakerfisins komi ekki til þess að samningar náist eins og að er stefnt og hæstv. forsætisráðherra orðaði sem svo að leitað skyldi eftir. Hvaða tölur eru hér á ferðinni? Hvað er þetta mikið? Bara þannig að við vitum það, það er mjög nauðsynlegt í allri umræðunni um þetta mál að við séum að tala um réttar tölur. Öðruvísi mun okkur ekkert miða áfram.