Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 20:01:08 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Við 3. umr. ræðum við frumvarp til fjáraukalaga ársins 2010. Væntanlega er þetta síðasta umræðan um fjáraukalagafrumvarp ársins. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Oddný Harðardóttir ræddu möguleikana á því að fresta afgreiðslu á hluta tillagnanna sem hér liggja fyrir þannig að þinginu gæfist betra næði til þess að fara yfir og rannsaka málin. Sú ályktun er dregin af orðaskiptum þeirra að umleituninni hafi verið hafnað þannig að málið kemur væntanlega til afgreiðslu að lokinni umræðunni sem nú er hafin.

Ég skal viðurkenna það að ég hef verið hugsi varðandi þann þátt starfsins sem Alþingi sinnir, þ.e. gerð fjárlaga fyrir ríkissjóð. Ástæða þess að ég hef verið að þenkja um þetta er einfaldlega sú að mér virðist tiltölulega lítill áhugi á þessum málum. Það er ekki nema upp komi einstök tiltekin mál um eina milljón hér eða tíu milljónir þar, sérstaklega ef það er hægt að tengja það einhverjum persónum, þá ætlar allt af göflunum að ganga og menn sýna því gríðarlegan áhuga, velta sér upp úr því alveg lon og don. Ég er ekki að gera lítið úr því að við eigum að spyrja spurninga varðandi ýmislegt sem þannig kemur upp. En umræðan um milljarða eða milljarðatugi, það fer tiltölulega lítið fyrir henni og áhugi þingmanna á þeim gjörningum öllum er tiltölulega takmarkaður. Svo furðulegt sem það er eru stóru tölurnar í þessu samhengi, milljarðarnir og milljarðatugirnir, minna ræddir en smáu fjárhæðirnar.

Ég fullyrði að með sama hætti liggur vinna þingsins, hvort tveggja varðandi fjáraukalagagerð og fjárlagagerð hvers árs. Þar eru menn endalaust að velta sér upp úr krónum og aurum. Nægir í því sambandi að nefna viðtöl og útdeilingu á safnliðum, sem sem betur fer sér fyrir endann á, og einnig þegar við fáum fólk frá stofnunum til viðræðna og skoðanaskipta bæði við fjárlaganefnd og fagnefndir, þá detta menn oft niður í þennan gír að velta við smærri fjárhæðum. Þetta er að mínum dómi alls ekki gott. Þetta ber vott um að við erum ekki að vinna vinnuna okkar eins og við ættum að gera. Við þurfum að gefa því betri gaum með hvaða hætti fjármununum sem hér liggja undir, sem eru 500 milljarðar, er ráðstafað.

Ástæða þess að ég geri þetta að umtalsefni eru tillögurnar sem liggja fyrir við 3. umr. frá meiri hluta fjárlaganefndar. Á tímum sem við, ýmsir þingmenn, höfum gengið í gegnum er mikið rætt um aukið gegnsæi, breytt vinnubrögð og annað því um líkt. Nægir í því sambandi að nefna umræðuna hérna á síðustu tveimur árum.

Mánudaginn 29. nóvember sl. hófst fundur í fjárlaganefnd klukkan 19.25. Á dagskrá fundarins voru tillögur ríkisstjórnarinnar að breytingum á fjáraukalagafrumvarpi ársins 2010. 58 mínútum síðar lauk nefndin störfum með þeim tillögum sem við tökum hér fyrir. Það lætur nærri að á hverri einustu mínútu sem fundurinn stóð hafi Alþingi Íslendinga eða meiri hluti fjárlaganefndar samþykkt að veita 1 milljarð kr. ýmist úr ríkissjóði eða að taka ábyrgð á 1 milljarði, á hverri einustu mínútu sem fundurinn stóð.

Ég segi fyrir sjálfan mig að ég hafði engar forsendur á fundinum til að styðja tillöguna sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði.

Önnur tillagan laut að fjármögnun á Íbúðalánasjóði að heimila stofnuninni að taka allt að 33 milljarða kr. framlag úr ríkissjóði sem ætlað er að styrkja eiginfjárstöðu sjóðsins og jafnframt að mæta hluta af afskriftum lána sem þar hvíla undir. Hin tillagan laut að því að gjaldfæra ríkisábyrgðir og lán sem ríkissjóðurinn var í ábyrgð fyrir og var 22–24 milljarða kr. skuldbinding sem þannig var tekin inn í gjöld og inn undir ríkissjóð sjálfan. Hraðinn á þessu máli var eins og ég hef gert grein fyrir. Þessar stóru afgreiðslur eru afgreiddar eftir rétt tæplega klukkutíma vinnu.

Það eru fleiri feilar í þessu dæmi en að við höfum ekki unnið vinnuna okkar. Til dæmis er hv. formaður fjárlaganefndar settur í þá stöðu að þurfa að flytja tvær framhjátillögur við þessa umræðu tengdar því hvernig verklagið við vinnu málsins er. Önnur lýtur að leiðréttingu á áætluðu framlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hin lýtur að því að þegar gengið er frá þessu koma ekki tillögur um með hvaða hætti á að fjármagna 33 milljarða kr. framlag til Íbúðalánasjóðsins. Þrátt fyrir að fyrir liggi tillaga frá hv. formanni fjárlaganefndar um að lánsfjárheimild fari úr 370 milljörðum kr. upp í 403 milljarða kr. skortir enn á upplýsingar. Það er ekki enn búið að gera grein fyrir því á sjóðstreymi, fjármögnunarhluta þess, hvernig og hvaða breytingar þetta kallar á.

Þessi dæmi nefni ég til að sýna mönnum fram á að við erum ekkert að vanda okkur við þetta verk, við erum að kasta til höndunum. Við 1. umr. um fjáraukann dásömuðu menn stöðuna sem blasti við, þ.e. bati í afkomu ríkissjóðsins á árinu 2010 átti að vera um 40 milljarðar kr. Áætlun fjárlagaársins gerði ráð fyrir 98 milljarða kr. halla. Fjáraukalagafrumvarpið sem lagt var fram fyrir rétt tæpum mánuði gerði ráð fyrir 58 milljarða kr. halla, 40 milljarða kr. bati er ekki lítið.

Ég man vel eftir því að við umræðuna sem átti sér stað, sem var ekki ýkja fjölmenn en engu að síður mikil að gæðum og magni, tóku þátt sá sem hér stendur ásamt títtnefndum hv. þm. í fjárlaganefnd Ásbirni Óttarssyni og hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra kvartaði undan því að menn væru ekki að hæla kallinum í brúnni nægilega vel fyrir þessa góðu afkomu. Að sjálfsögðu verða menn vel við því. Það ber að virða það sem vel er gert og það er undirstrikuð í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd ánægja með þá mynd sem þar birtist.

Hvað gerist svo? Á einu bretti eru slegnir út 24 milljarðar, bara sisvona, sennilega á 24 mínútum. Það er ekki lengi gert að sveifla þessu til. Það er þetta atriði sem ég held að eigi að stórum hluta þátt í því hvernig þingmenn eru að rækja almennt og rækta hlutverk sem Alþingi hefur fremst allra, þ.e. fjárstjórnarvaldið. Það er gengið yfir það á skítugum skónum og ætlast til þess að menn kokgleypi einfaldlega út af tímafresti þær tillögur sem koma fram, jafnvel þó að allir nefndarmenn í fjárlaganefndinni hafi miklar efasemdir um að gera þetta með þessum hætti. Þessum fjanda ætlar aldrei að linna. Þetta veikir stöðu okkar einfaldlega vegna þess að það vilja allir vinna þessi mál af meiri skynsemi og meiri yfirvegun og rannsaka betur þá hluti sem okkur er ætlað að taka til umfjöllunar. Til þess hefur ekki gefist tími af einhverjum ástæðum.

Ég vil nefna sérstaklega að í framhaldsnefndaráliti, sem 1. minni hluti fjárlaganefndar stendur að, auk þess sem hér stendur eru það hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, gerum við þessi mál að umtalsefni, sérstaklega Íbúðalánasjóðinn og ríkisábyrgðirnar. Það kom fram í andsvörum og svörum hv. formanns fjárlaganefndar og þingmanna hér í sal að þetta væri tiltölulega stór fjárhæð, 33 milljarðar. Það væru skiptar skoðanir um það og hefðu verið hversu stór hluti þessarar fjárhæðar færi til þess að styrkja eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðsins. Umræða hefur verið um allt frá 18 milljörðum upp í 22 milljarða. Þá yppta menn öxlum og segja: Það er kannski bitamunur en ekki fjár. Þetta eru 4 milljarðar kr. Þetta jafngildir hærri fjárhæð en öll sú óforskammaða atlaga sem birtist í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 gagnvart heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, sennilega milljarði hærri. Þá yppta menn öxlum og segja að 4 milljarðar til eða frá í þessu sambandi skipti ekki máli.

Á þessum sama fundi var rætt við fulltrúa Íbúðalánasjóðs sem mættu á sameiginlegan fund fjárlaganefndar og félagsmálanefndar. Þar kom fram að fjárhæð afskriftanna sem sjóðurinn ætti að taka á sig lægi ekkert fyrir. Og í máli forstöðumanns sjóðsins kom fram að hann gerði ráð fyrir því að starfsmenn Íbúðalánasjóðs mundu reikna sig niður á þessa tölu yfir helgina. Þá útreikninga höfum við ekkert séð. Skipta þeir engu máli? Breytir það engu fyrir þá ákvörðun sem hér þarf að taka hvort slíkir útreikningar liggja fyrir eður ei? Ef það skiptir ekki máli er Alþingi með þessu laginu að heimila Íbúðalánasjóði opna heimild allt að 33 milljörðum kr. án þess að fyrir liggi nákvæm útlistun á því hvernig hún verði nýtt. Þetta sé einhvers konar hámark að því gefnu að kannski þurfi sjóðurinn að nota svo og svo mikið af þessu.

Þessi vinnubrögð eru að mínu mati ekki til þess að auka agann í ríkisfjármálum. Þvert á móti gefur þetta einstökum stofnunum eða forstöðumönnum þeirra tilefni til þess að krefja okkur um auknar heimildir án þess að fyrir liggi nákvæm útlistun á því hvernig þeir ætla að nýta þetta.

Þetta er með sama hætti og umræðan sem við áttum þegar lánveitingarnar til heilbrigðisstofnana voru veittar úr ríkissjóði án þess að Alþingi væri spurt. Þær standa núna óuppgerðar með þeim hætti að halli hefur verið klipptur af einhverjum tilteknum ríkisstofnunum án þess að nokkrar áætlanir liggi fyrir um það hvernig færa á hallann né hvort eða hvernig eigi að greiða hann til baka.

Hitt málið sem ég vil gera að umtalsefni eru þessar margumræddu ríkisábyrgðir sem gert er ráð fyrir að nemi um 24 milljörðum kr. og á að gjaldfæra á ríkissjóð á því herrans ári 2010.

Hv. formaður fjárlaganefndar var mjög liðlegur og gekk hratt og vel fram í að fá Ríkisendurskoðun til fundar við fjárlaganefnd til þess að skýra þessa hluti betur en fjármálaráðuneytið gerði að kvöldi 29. nóvember. Ríkisendurskoðun var sent erindi þar sem óskað var eftir því hvaða þætti við vildum ræða við Ríkisendurskoðun um þetta mál. Það mættu fulltrúar frá Ríkisendurskoðun, Fjársýslu ríkisins og fjármálaráðuneytinu.

Ástæðan fyrir spurningunni og ástæðan fyrir því að ég vil og geri kröfu til þess að málið verði krufið til mergjar er í fyrsta lagi að hér er um gríðarlegar skuldbindingar að ræða sem skipta verulegu máli.

Í annan stað undrar mig hvers vegna í ósköpunum ekki var búið að gera þetta fyrr ef svona á að vera, ef á að færa þetta með þessum hætti. Það liggur fyrir að allt frá árinu 2004, í ríkisreikningi þess árs, hafa ábyrgðarskuldbindingar ríkisins verið færðar vegna Lánasjóðs landbúnaðarins, vegna KB-banka og vegna Íslandsbanka á árinu 2005. Það sem gerist hins vegar á milli áranna 2004 og 2005 er að ábyrgðarskuldbindingin er færð úr Lánasjóði landbúnaðarins undir Landsbanka Íslands, væntanlega vegna sölunnar sem þar átti sér stað.

Í ríkisreikningi 2006 er í ábyrgðarhluta ríkisreikningsins hvergi minnst á Lánasjóð landbúnaðarins, hann er ekki að finna í þessu skjali. Hins vegar eru áfram ábyrgðir vegna Landsbankans, KB-banka og Glitnis. Síðan gerist það árið 2007 að Lánasjóður landbúnaðarins kemur aftur inn í ríkisreikning með ábyrgðarskuldbindingu. Síðan gerist það í ríkisreikningi 2008 að þá eru lánasjóðurinn, Landsbankinn, KB og Glitnir komnir inn og þá er þess getið í athugasemd um Lánasjóð landbúnaðarins hver ábyrgðin er og tiltekið að krafan verði ekki færð inn í reikninga af því að hún er ekki formlega fallin á ríkissjóð.

Með sama hætti er færslan í ríkisreikningi árið 2009. Þá er tiltekið að krafan sé ekki formlega fallin á ríkissjóð og því sé hún ekki gjaldfærð á þann veg sem nú er lagt til. Það er hins vegar talið líklegt að ábyrgðarskuldbindingarnar falli á ríkissjóðinn en þó ekki fyrr en gengið hefur verið frá uppgjörum bankanna. Maður spyr sig: Er búið að ganga frá bönkunum? Nei, það hefur ekki enn verið gert. Við höfum ekki fengið svör eða röksemdir fyrir því hvers vegna þetta er gert svona núna önnur en þau að það sé líklegt að þetta falli og þá segi ég: Það er ekkert nýtt í þeim efnum. Það er einhver önnur ástæða fyrir því að menn gera þetta akkúrat hér og nú.

Ég segi fullum fetum: Þess vegna vil ég að það verði líka rannsakað með hvaða hætti farið var með ábyrgðarskuldbindinguna þegar skiptin áttu sér stað milli gamla og nýja bankans. Menn hafa haldið því fram í umræðunni að það hafi bara verið færðar innstæður yfir í nýja bankann. Það er ekki rétt, það voru ótal aðrar eignir færðar yfir, eignir á móti.

Það segir í þessu erindi sem við fengum afrit af í fjárlaganefndinni, sem var ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, varðandi mat á eignum og uppgjör, með leyfi forseta, hljóðar það svo:

„Fjármálaeftirlitið skipar viðurkenndan matsaðila til þess að meta sannvirði eigna og skulda sem ráðstafað er til Nýja Landsbanka Íslands samkvæmt þessari ákvörðun. Að því mati loknu skal fara fram uppgjör þar sem Nýi Landsbanki Íslands hf. skal greiða Landsbanka Íslands hf. mismun á virði eigna og skulda er miðast við tímamörk samkvæmt 5. tölulið.“

Jafnframt vorum við upplýst um að þetta mat á eignum og skuldum hafði farið fram. Það gerði endurskoðunarfyrirtækið Deloitte sem greindi allt eignasafnið og fyrirtæki sem heitir Wyman endurrýndi matið. Síðan að sjálfsögðu kemur fjármálaráðuneytið að uppgjörinu sem þar fer fram. Það er ríkissjóðurinn sem þarf að fjármagna allt heila galleríið og veita fé og lán til þess að fjármagna það sem upp á vantar. Maður spyr sig við þá gjörð hvernig í ósköpunum menn fara að því sem eiga 100% eign, alla bankana í vörslu íslenska ríkisins, þegar þeir ganga til samninga þó ekki væri nema við sjálfa sig að 87% inni í Landsbankanum, þá ganga þeir þannig frá að skilja ábyrgðina eftir í gamla bankanum en láta hana fylgja eignunum sem fluttar voru yfir í nýja bankann.

Þetta eru hlutir sem ég hefði talið eðlilegt að menn færu ofan í. Skoðuðu hvernig staðið var að þessu árið 2005 og jafnframt hvernig staðið var að þessu árið 2009 þegar við réðum bönkunum öllum eins og þeir lögðu sig og stóðum í að skipta þeim upp.

Í dag, 6. desember, kom á netmiðlunum frétt um að Ríkisendurskoðun gagnrýndi harðlega, eins og þar stóð, reikningsskil og fjármálastjórn ríkisins. Þegar maður rýndi í þetta kom í ljós að Ríkisendurskoðun birti í dag, 6. desember á því herrans ári 2010, endurskoðun ríkisreiknings árið 2009. Hann lá fyrir í mars á þessu ári. Reikningurinn var kynntur fyrir okkur í júlí. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé verklag sem ekki gangi ef það á að vera eitthvert vit, ef menn kjósa það, eða vitglóra í vinnubrögðum á Alþingi þá er þetta regla sem gengur ekki. Í þessum sömu athugasemdum er fjallað um ríkisábyrgðina sem við tökum inn núna. Maður spyr sig: Af hverju höfðu menn ekki þessar gríðarlegu áhyggjur fyrr af málum?

Það sem ég vil segja undir lok ræðu minnar er að það sem ég hef gert að umtalsefni er fyrst og fremst gert í þeim tilgangi að styrkja hv. formann fjárlaganefndar í því verki að spyrna við fótum gagnvart ofbeldi sem Alþingi og sérstaklega fjárlaganefnd er beitt við að ná fram þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við viljum ástunda. Ég minni hv. formann fjárlaganefndar á atriðin sem komu skýlaust fram í vinnu Alþingis á grunni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í þingsályktuninni sem fólst í niðurstöðunni voru greidd 63 samhljóða atkvæði í þessum sal um tillöguna sem ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp. Þetta er texti sem snertir vinnubrögð Alþingis. Allir 63 þingmennirnir samþykktu ályktunina samhljóða.

Með leyfi forseta, hljóðar hún svo:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem er mikilvægt að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur að styrkja beri eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem gegnir þar mikilvægu aðhaldshlutverki.

Þingmannanefndin telur að taka þurfi til endurskoðunar það verklag sem tíðkast hefur við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í því samhengi leggur nefndin til að ríkisstjórn verði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar, málefnalegrar umræðu og afgreiðslu.“

Svo mörg voru þau orð. Því miður sýnist mér að við séum ekki búin að ná það langt að vinna á grunni samþykktarinnar sem Alþingi gerði. Það er miður vegna þess að núna vinnum við með gríðarlega háar fjárhæðir. Það er krafa frá öllum sem standa eiga undir greiðslu að við vöndum okkar verk.

Ég vil nefna undir lok máls míns að við vinnum að fjárlögum ársins 2011. Í vinnu okkar má finna sambærileg atriði sem krefja okkur um betri greiningu á því sem fyrir okkur er lagt, ekki endilega sömu fjárhæðir en sama grunn, þ.e. krafan er á okkur að rannsaka tillögurnar betur en fram eru lagðar. Væntanlega verður málum stillt upp með þeim hætti að við munum ekki hafa ýkja mikinn tíma til að sinna því. Í þessum efnum vil ég að síðustu nefna tíðindi af vettvangi ríkisfjármála sem er yfirlýsing og samkomulag ríkisstjórnar Íslands við lífeyrissjóðina og bankana sem kveður á um að skuldbinda ríkissjóð og þar með skattgreiðendur landsins til þess að leggja af mörkum tugi milljarða kr. á tiltölulega skömmum tíma, ef maður les þetta rétt. En eins og um svo margt annað sem frá þessari makalausu ríkisstjórn kemur er þetta hvort tveggja illa útfært og ógegnsætt.