Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 22:24:46 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr mig hvort ég sé algjörlega sannfærður um að rétt sé með farið. Ég er algjörlega sannfærður um það, já. Eins og ég sagði áðan var enginn ágreiningur um það á fundi fjárlaganefndar nema á milli þriggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks annars vegar og þeirra gesta sem komu til fundarins hins vegar. Ég er því fyllilega sannfærður um að rétt sé með farið enda sýna öll gögn sem að okkur hafa beinst í þessu máli og allar umsagnir sem fjárlaganefnd hefur fengið svart á hvítu hvenær þetta gerðist, hvaða mistök voru gerð og hvers vegna við sitjum uppi með þetta í dag, sem við hefðum aldrei átt að gera. Menn verða að horfast í augu við að það voru gerð mistök, gerðir hlutir sem aldrei nokkurn tímann átti að gera. Það kemur fram í minnisblaði frá Ríkisendurskoðun, í skýrslu Ríkisendurskoðunar, í umsögn Fjársýslu ríkisins sem kom á fund fjárlaganefndar og fulltrúa fjármálaráðuneytisins að rétt sé farið með. Skuldin liggur fyrir, upphæðin er klár og það verður að gjaldfæra hana í stað þess að leyna henni eins og hingað til hefur verið gert.