Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 22:37:06 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður, ég náði nú ekki alveg innganginum að spurningunni. Eitthvað var talað um að kasta steinum úr glerhúsi eða gróðurhúsi, ég náði því nú ekki alveg, og ráðast á fortíðina. Það er nú það sem við erum að glíma við í dag, það er hluti af fortíðinni sem við erum að glíma við í dag, þ.e. bæði ríkisábyrgðarmálið og staða Íbúðalánasjóðs. Það er alveg sama hvað okkur langar heitt til að horfa fram hjá því, ástæða þess að við erum að ræða þessi mál í dag er úr fortíðinni — ekki í framtíðinni, ekki nútíðinni, heldur fortíðinni, við erum að gera upp fortíðarmál. Með því er ekkert verið að ráðast á fortíðina sem slíka, heldur gera hana upp. Það er það sem þetta mál snýst um.

Hve mikið mun innheimtast af þessum kröfum? Væntanlega er hv. þingmaður þá að vitna til þeirra krafna sem eru innan Landsbanka Íslands, því að sambærilegir hlutir áttu sér stað í öðrum bönkum bara í miklu minna mæli eða lægri upphæðir, svo sem Iðnlánasjóður og fleira sem gekk inn í Glitni eða Íslandsbanka eða hvað þetta hét nú allt saman á þeim tíma. Varðandi það sem féll á ríkið sem ábyrgðaraðila innan Landsbankans eru ekki miklar vonir um að nokkur einasta króna komi þar inn, því miður. Þrotabú Landsbankans virðist ekki ætla að eiga fyrir kröfum eins og komið hefur fram í öðru stóru máli sem hefur verið til umræðu allt of lengi. Það er því ekki mikil von bundin við að eitthvað fáist upp í þessar ábyrgðir, því miður. Það er samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar, Fjársýslunnar og fjármálaráðuneytisins.