Fjáraukalög 2010

Þriðjudaginn 07. desember 2010, kl. 14:56:29 (0)


139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Árið 2005 var Lánasjóður landbúnaðarins seldur Landsbanka Íslands. Andvirði sölunnar, 2,7 milljörðum, var að mestu leyti varið í Lífeyrissjóð bænda en auk þess var því sem eftir stóð, einhverjum hundruð milljónum króna, ráðstafað til þáverandi landbúnaðarráðherra, vonandi til ýmissa góðra mála. Skuldir lánasjóðsins voru afhentar Landsbankanum með ríkisábyrgð og engin áform voru í kaupsamningi um að aflétta þeirri ábyrgð og engin merki að finna í gögnum málsins frá þeim tíma um að slíkt hafi einu sinni verið rætt. (Gripið fram í.)

Á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun, Fjársýslu ríkisins og fjármálaráðuneyti um meðferð málsins kom fram samdóma álit allra þessara aðila að ekki væri undan því vikist að ríkissjóður, sem ábyrgðaraðili skuldanna, greiddi skuldina sem í rauninni féll á ríkið í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Síðan eru liðnar, ef ég reikna rétt, um ein milljón eitt hundrað og fjörutíu þúsund mínútur frá hruni. Þann tíma hefur hv. þm. Kristján Þór Júlíusson haft til að kynna sér málið því þessa hefur verið getið í ríkisreikningum (Forseti hringir.) til dagsins í dag. Þetta eru engar nýjar fréttir.