Fjáraukalög 2010

Þriðjudaginn 07. desember 2010, kl. 14:57:43 (0)


139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Svo ég fari yfir það hvernig þessi breytingartillaga kom inn í fjárlaganefnd þá gerði hún það á þessum fræga kvöldfundi, 58 mínútna fundi. Fyrir lá í fjáraukalagafrumvarpinu að notaður yrði 1 milljarður vegna ríkisábyrgðanna. Síðan komu þessir 23 milljarðar og menn telja í mínútum og sekúndum hversu lengi menn hafa vitað um það. Ég veit ekki hver hefði átt að vita af því ef ekki fjármálaráðuneytið og þetta skýrir ekki þá meðferð á málinu að það skuli koma inn einungis örfáum klukkutímum áður en á að ræða það, 24 milljarðar í ríkisábyrgð.

Hins vegar vil ég segja það og ég treysti því að hv. formaður fjárlaganefndar, Oddný G. Harðardóttir, eins og hún sagði hér í ræðu í gær, láti rannsaka málið, sérstaklega vegna yfirlýsinga hv. þm. Björns Vals Gíslasonar en hann er þegar búinn að komast að niðurstöðu í málinu þótt hann hafi engin efnisleg rök til þess. Mín skoðun er sú að mistökin hafi verið gerð þegar nýju bankarnir voru stofnaðir og sökin liggi hjá hæstv. núverandi fjármálaráðherra. (BVG: Þú ert einn um þá skoðun.) Nei. [Kliður í þingsal.]