Mannvirki

Miðvikudaginn 08. desember 2010, kl. 11:12:23 (0)


139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[11:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Til afgreiðslu eru breytingartillögur frá umhverfisnefnd við frumvarp það sem hér liggur fyrir um mannvirki. Ég minni á að ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þess að þetta mál og brunavarnir eiga að fara í umhverfisnefnd að þessari umræðu lokinni. Ég vil samt minna þingmenn á að þau tvö mál sem eru nú hér til afgreiðslu tengjast frumvarpi til skipulagslaga sem samþykkt var á síðasta löggjafarþingi og á að taka gildi 1. janúar 2011. Hér hafa komið upp ágreiningsmál milli aðila og ég hvet formann umhverfisnefndar, úr því að svo góð sátt náðist í nefndinni við afgreiðslu þessara mála fyrir 2. umr., til að vinna faglega og hratt að þessum breytingum þannig að þessi frumvörp verði örugglega að lögum fyrir áramót svo að ekki þurfi að framlengja gildistökuákvæðið skipulagslaga.