Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. desember 2010, kl. 19:09:18 (0)


139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[19:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég held að munurinn á milli verðlags matvara sé ekki jafnmikill og hann var fyrir nokkrum árum. Ég held hins vegar að skýringuna sé að finna í þróun gengis. Ég veit ekki alveg hvort ég er sáttur vegna þess að skýringuna er að finna þar, af því að ég held að við finnum fyrir því á öðrum stöðum hversu veikt gengið er í raun og veru og það er ekki sú raunstaða sem ég mundi vilja sjá til lengri tíma, þ.e. sú staða sem er á genginu í dag.

Ég vildi bara vekja máls á þessu. Ég held að sú umræða sem hér fer fram sé málefnaleg og þroskandi fyrir umræðuna og sýni kannski andstæð sjónarmið, ég held að við höfum mismunandi leiðir að sama markmiði. Við sáum það t.d. þegar Mjólkursamsalan og KS sameinuðust á mjólkurmarkaði og þessi fyrirtæki hafa í dag um 95% markaðshlutdeild, að þá sagði í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2009:

„Búvörulög meinuðu Samkeppniseftirlitinu að hafa afskipti af þessum samruna en þar beindi Samkeppniseftirlitið því til landbúnaðarráðherra að hann beitti sér fyrir afnámi ákvæða sem heimiluðu mjólkurafurðastöðvum að hafa með sér samráð og sameinast án afskipta samkeppnisyfirvalda og jafnframt að kannaðar yrðu leiðir til að koma á samkeppni á markaðnum.“

Ég vil velta þessu upp hér við þingmanninn: Er ekki ákjósanlegt að við opnum aðeins markaðinn, að við skoðum aðeins með hvaða hætti menn eiga viðskipti á þessum markaði? Ég held að það sem mundi kannski gerast væri það að við opnuðum frekar á nýliðun, framþróun og nýsköpun í þessum geira. Mér finnst stundum að við mættum gefa bændastéttinni frekari möguleika á að vaxa og dafna og vera ekki of bundin í viðjum þess kerfis sem við höfum í dag.