Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 16. desember 2010, kl. 13:15:31 (0)


139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

219. mál
[13:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að koma til móts við óskir Fjármálaeftirlitsins um auknar fjárveitingar. Í skýrslu þingmannanefndarinnar sem unnin var í framhaldi af niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis kom fram skýr krafa um að það þyrfti að styrkja Fjármálaeftirlitið. Við sáum það síðan í atkvæðagreiðslunni sem fór fram um þingsályktunartillöguna að það var hreinn meiri hluti fyrir því að taka undir ályktanirnar sem þar komu fram.

Það kom líka fram að við ætluðum ekki að gera það án fyrirvara og skilyrða. Við ætlum að sjá til þess að það fari fram stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og við viljum tryggja það að Fjármálaeftirlitið muni raunverulega standa sig ólíkt því sem það gerði fyrir bankahrunið. Því segi ég já við þessari breytingartillögu en skilaboðin frá þinginu þurfa að vera skýr um að þetta er ekki án skilyrða.