Nýr Icesave-samningur

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 10:32:48 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Spunaaðferðir Samfylkingarinnar voru talsvert til umræðu í gær einu sinni sem oftar, m.a. leiðbeiningarit sem Samfylkingin gefur út í þeim efnum og kallað er, eðlilega, Rauði þráðurinn. Þennan rauða þráð spinnur Samfylkingin iðulega þegar hún vill koma einhverjum skilaboðum á framfæri og þetta er sent á alla helstu trúnaðarmenn og bloggara, ekki hvað síst þá hamra sem mest þeir mega á lyklaborðið til að koma þeim skilaboðum áleiðis sem menn telja þörf hverju sinni.

Það var rætt töluvert um ísöldina hér í gær. Önnur saga sem við munum eftir var þegar reyna átti að koma því inn að framsóknarmenn væru sérstaklega neikvæðir og svartsýnir — alveg ótrúlegt að láta sér detta slíkt í hug og ég veit reyndar að hæstv. utanríkisráðherra hefði ekki dottið það í hug. Hæstv. ráðherra datt hins vegar önnur saga í hug og hún var sú að reyna að búa til þá mynd af formanni Framsóknarflokksins að hann væri Icesave-maður. Og þegar Icesave-málið var, að því er hæstv. ráðherra hélt, búið fyrir ári síðan setti hæstv. ráðherra af stað mikinn spuna í samráði við Rauða þráðinn og fleiri þess efnis að nú væri Framsóknarflokkurinn búinn að tapa sínu stóra máli, Icesave, því að ríkisstjórnin hefði haft menn undir. Hæstv. ráðherra mætti bísperrtur í viðtal og sagði: Hvað á Framsóknarflokkurinn að gera núna?

Þá er spurningin, svona í ljósi reynslunnar: Getur ekki verið að hæstv. ráðherra sé stundum svolítið fljótur á sér? Nú aftur, ári seinna þegar komið er nýtt tilboð í Icesave, allt annars eðlis þar sem munar 400–500 milljörðum kr., sagði ráðherra: Við eigum ekkert að bíða boðanna heldur grípa þessa gæs, og leit svo á að þetta nýja tilboð gæti bara flögrað burtu ef við stykkjum ekki á það (Forseti hringir.) einn, tveir og þrír. Getur verið að hæstv. ráðherra sé örlítið fljótur á sér og að við eigum að gefa okkur tíma til að fara yfir hlutina?