Stuðningur stjórnarliða við fjárlögin

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 10:39:35 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

stuðningur stjórnarliða við fjárlögin.

[10:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra frá því í gær við því að þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs studdu ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar voru afar hörð. Í fréttum Stöðvar 2 í gær var haft eftir hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að í framtíðinni yrði erfitt að treysta þremenningunum, þingmönnunum þremur sem ekki studdu frumvarpið. Framganga þeirra hefði ekki verið stórmannleg og hún gæfi lítið fyrir þau rök sem þau færðu fyrir afstöðu sinni.

Í ljósi þessara yfirlýsinga hæstv. forsætisráðherra er ástæða til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra Ögmund Jónasson hvort hann sé sammála hæstv. forsætisráðherra um að afstaða þremenninganna sé ekki stórmannleg. Tekur hann undir það að lítið sé gefandi fyrir rök þeirra sem fram koma í yfirlýsingu þeirra frá því í gær?