Stuðningur stjórnarliða við fjárlögin

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 10:42:21 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

stuðningur stjórnarliða við fjárlögin.

[10:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er ekkert verið að færa stjórnmálin ofan í persónulegar skotgrafir. Það er eins og hæstv. dómsmálaráðherra hafi skipt um ham frá því að hann var þingmaður í stjórnarandstöðu og þegar hann varð hæstv. dómsmálaráðherra. Það er verið að spyrja hæstv. ráðherra einfaldra spurninga, nefnilega þeirra hvort hann taki undir það með hæstv. forsætisráðherra að afstaða flokksfélaga hans hafi ekki verið stórmannleg og hvort lítið sé gefandi fyrir þau rök sem þeir færðu fyrir afstöðu sinni. Hæstv. dómsmálaráðherra færðist undan því að svara þessum einföldu spurningum og ég ítreka þær þess vegna. Ef hann færist aftur undan því að svara þeim er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að hann sé að snúa baki við flokksfélögum sínum sem ég hefði haldið fyrir fram að hæstv. ráðherra mundi verja (Forseti hringir.) af þessu tilefni.