Skuldavandi heimilanna

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 10:59:21 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Meðferð skuldavandans hefur, eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, verið mikilvægt verkefni á yfirstandandi ári og við glímum áfram við það á næsta ári. Það er afleiðing gengishrunsins að við sitjum eftir með mikla skuldsetningu jafnt í atvinnulífi og hjá heimilunum.

Það sem er að frétta af gerð verklagsreglnanna er að vinna við þær hefur gengið ágætlega. Nokkur atriði eru útistandandi og hið stærsta er að á Alþingi hefur ekki verið afgreitt frumvarpið um umbreytingu gengislánanna sem er forsendan fyrir því að við getum farið af stað með þau verkefni sem gert er ráð fyrir í samkomulaginu. Nú reynir á þingið að afgreiða það mál og ég vonast til að það verði afgreitt úr efnahags- og skattanefnd í dag þannig að við getum tekið á því máli og afgreitt það héðan sem lög á morgun. Það er stærsta hindrunin í veginum. Ég held að við getum náð öðrum hindrunum burt ef þetta verður frágengið.

Svo er líka mikið áhyggjuefni, finnst mér, að þingið skuli ekki afgreiða frá sér frumvarp um rannsókn á skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Það var lagt fram af forvera mínum í marsmánuði og dagaði uppi í vor. Ný útgáfa af frumvarpinu kom inn í haust og það hefur ekki verið afgreitt frá efnahags- og skattanefnd. Það er ósköp takmarkað sem stjórnvöld geta gert í skuldamálum heimila og það er erfitt fyrir stjórnvöld að mæta þinginu og gefa þær upplýsingar sem þingið kallar eftir ef þingið gefur okkur ekki tæki til að afla þeirra.