Skuldavandi heimilanna

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 11:02:34 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[11:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er þakklátur fyrir þessi orð hv. þingmanns. Það er mikilvægt að geta reitt sig á þverpólitískt samstarf við að ýta þessu máli áfram.

Hvað varðar breytinguna á fyrningarfrestinum truflar hún ekki á einn eða neinn hátt samstarf okkar við fjármálastofnanir. Hún er hins vegar mjög mikilvægt innlegg til að styrkja samningsstöðu skuldara í viðureign við kröfuhafa og þess vegna til að greiða fyrir að fleiri og fleiri mál fari með sanngjörnum samningum í gegnum sértæka skuldaaðlögun eða frjálsa greiðsluaðlögun.

Það eru alltaf að koma upp vandamál í úrvinnslu þessara mála og við höfum glímt við þau mörg. Þegar við t.d. settum lögin nr. 107/2009 í fyrrahaust tók við þverpólitískt samstarf. Hver einasta hugmynd sem kom fram í því samstarfi af hálfu hinnar þverpólitísku nefndar var tekin inn í vinnu vegna löggjafarbreytinga í fyrravor þannig að við höfum haft um þetta þverpólitískt samstarf og við þurfum að halda því áfram. En við megum aldrei gleyma því að hér er um daglega baráttu að ræða og við munum þurfa að hafa mikinn aga á fjármálakerfinu. (Forseti hringir.) Þar verða allir að taka þátt, ekki bara sumir, og við verðum að greiða fyrir því að þau úrræði sem við höfum komið á virki.