Gjaldþrotaskipti

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 11:14:12 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[11:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu máli og tel mikla réttarbót og mannréttindabót að þessu. Ég vek athygli hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra á klausu í nefndarálitinu um þær 250 þús. kr. sem gjaldþrota einstaklingar þurfa að reiða af hendi ef þeir óska eftir gjaldþroti. Þar segir nefndin:

„Telur meiri hlutinn að í samanburði við þá hagsmuni sem skuldari getur haft af gjaldþrotaskiptum geti sú fjárhæð ekki talist óyfirstíganleg, nema í þeim tilfellum sem bú er fyrirsjáanlega eignalaust eða mjög eignalítið og beinir meiri hlutinn því til ráðherra að láta kanna hvort unnt sé í slíkum tilfellum að mæta kostnaði við trygginguna.“

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að þegar þetta frumvarp verður að lögum verði búið að staðsetja vel í reglugerð ákvæði um að þessi upphæð geti lækkað eða jafnvel fallið niður hjá þeim sem hafa ekki efni á að greiða hana.