Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 11:42:57 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[11:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni félags- og tryggingamálanefndar fyrir svarið og það að þau ætli að fylgja þessum þætti eftir núna eftir áramótin og ég held að það sé mjög mikilvægt. Það hefur tekið áratugabaráttu að koma upp þessu húsnæði í þjónustu við fatlað fólk og það er þannig að talsverður hluti þess var byggður upp þegar við gerðum allt aðrar kröfur til húsnæðis fyrir fatlað fólk en við gerum í dag. Það er mikilvægt að þeir fjármunir sem kunna að losna við sölu eigna séu fyrst nýttir til þess að koma því húsnæði sem þá eftir er í það stand sem við getum verið stolt af. Ég er viss um að sveitarfélögin hafa metnað til þess líka og jöfnunarsjóðurinn starfar náttúrlega eftir lögum sem við setjum hér á þinginu og reglugerðum sem ráðuneytið setur.

Ég vildi þá kannski í seinna andsvari mínu fá að inna hv. formann nefndarinnar eftir viðbrögðum nefndarinnar við þeim athugasemdum sem komu fram varðandi notendastýrða þjónustu. Ég veit að það hefur verið mikið áhugamál í nefndinni og hjá mörgum þingmönnum að þróa þjónustuna í þessum málaflokki í þá átt.