Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 12:36:40 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit ekki hvort það er að bera í bakkafullan lækinn að halda áfram að hrósa hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni nefndarinnar, ég held að hv. þingmaður fari hjá sér undir þessum ræðum öllum saman.

Jú, það er vel að hægt sé að vinna aðeins öðruvísi, það gerir lífið skemmtilegra að dagarnir séu ekki allir eins og það er gott.

Varðandi það að félags- og tryggingamálanefnd ætti að semja frumvarpið sjálf um réttindagæsluna þá getur það vel komið til greina. Ef ráðuneytið mundi t.d. ekki skila okkur sínu verki á réttum tíma er ekkert annað hjá okkur að gera en að einhenda okkur í það. Hins vegar hefur málum verið þannig háttað hvað varðar vinnulag og tímasetningar í vinnu nefndarinnar að við höfum einfaldlega ekki haft mikinn tíma aflögu til að setjast í slíka vinnu. Jafnframt skortir okkur fleiri starfsmenn til að setjast yfir það verk með okkur til að það væri mögulegt. En eins og hv. þingmaður veit liggur hér fyrir frumvarp til breytinga á þingsköpum þar sem verið er að fækka nefndum og spurning er hvort við það breytta vinnulag, verði það að veruleika, muni nefndirnar styrkjast og þar af leiðandi verði meira svigrúm til að fara í sjálfstæðari vinnubrögð. Ég átta mig ekki alveg á þeim breytingum en það gerist að sjálfsögðu ekki nema starfsmönnum Alþingis verði jafnframt fjölgað. Ég held því miður að það sé ekki að fara að gerast nú á þessum tímum þegar niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og grunnþjónustu við íbúa landsins eru daglegt brauð í þinginu.