Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 14:05:16 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Sem fulltrúi Samfylkingarinnar í félags- og tryggingamálanefnd, og ein þeirra þingmanna sem rita undir nefndarálitið sem hér er til umræðu, vil ég hnykkja á tveimur atriðum í álitinu. Hið fyrsta varðar atvinnumál fatlaðs fólks. Við yfirflutninginn voru gerð svolítil mistök, það verður að viðurkennast, og er verið að reyna að koma í veg fyrir að það hafi slæm áhrif á atvinnumál fatlaðra, með lausn í frumvarpinu, og við fjöllum aðeins um það í nefndarálitinu.

Eins og þingmönnum er ljóst eru atvinnumál og aðgerðir á vinnumarkaði á hendi Vinnumálastofnunar jafnt fyrir fatlaða sem ófatlaða einstaklinga og við teljum mjög mikilvægt að þannig verði það áfram. Það kemur skýrt fram að þannig verður það örugglega frá 1. janúar 2012 en það verður árslangt millibilsástand þar sem hluti af þessu starfi fer til sveitarfélaganna og svo flyst það aftur til Vinnumálastofnunar.

Við í nefndinni teljum mjög mikilvægt að þessum málum verði komið í fast horf í nánu samráði við notendur þjónustunnar og munum fylgjast með því í starfi nefndarinnar á næsta ári. Við bendum líka á að fulltrúar fatlaðra einstaklinga eiga sæti í stýrihópi sem mun hafa samráð um þessi mál á næstunni. Það þarf kannski ekki að hafa fleiri orð um nákvæmlega þennan þátt málsins annað en að benda á þessa staðreynd. Mér þykir það frekar miður, og hef sagt það í nefndinni, að þetta skyldi hafa farið svona af því að hér er að mínu viti óþarfahringl á ferðinni. En við urðum að leysa þetta á þennan hátt og það eru allir mjög meðvitaðir um þessa stöðu og tilbúnir til að vinna úr henni eins og hún er og tilbúnir til að færa hana í það horf sem við erum öll sammála um að hún eigi að vera í 1. janúar 2012. Ég vildi koma upp og benda á þetta í umfjölluninni en vísa að öðru leyti til umfjöllunar um þetta mál í nefndarálitinu.

Þá vildi ég einnig ræða afar stuttlega heildarendurskoðun á löggjöf um málefni fatlaðs fólks. Það varð að sjálfsögðu mikil umræða um það í nefndinni að brýn þörf er á heildarendurskoðun á lögunum og lagaumgjörðin er orðin nokkuð gömul, hún er komin til ára sinna. En að sama skapi var okkur sniðinn þröngur stakkur vegna þess að við erum að framkvæma hina lagalegu hlið yfirfærslu verkefnisins frá ríki til sveitarfélaga innan rammans sem samkomulag ríkis og sveitarfélaga er. Hefði nefndin ráðið þessu ferli frá upphafi til enda hefði þetta verið með öðrum hætti eins og margoft hefur komið fram í ræðum nefndarmanna á undan mér. En við gerðum okkur grein fyrir því að það væri mikilvægt og brýnt að gera þetta vegna þess að það væri hluti af hagsmunagæslunni og því að marka betri þjónustu við fatlaða einstaklinga um allt land á Íslandi að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Þess vegna vorum við tilbúin að vinna þetta á þennan veg.

Það breytir því ekki að ráðast þarf í heildarendurskoðun á löggjöfinni um réttindi og málefni fatlaðs fólks hér á landi og sú endurskoðun verður að fara fram í nánu samstarfi við notendur þjónustunnar, í nánu samstarfi við hagsmunasamtök fatlaðra einstaklinga, fjölskyldur þeirra og þá forsvarsmenn fatlaðs fólks á Íslandi sem hafa beitt sér hvað mest í umræðunni. Nokkrir þeirra komu á fund nefndarinnar og upplýstu okkur um sjónarmið varðandi endurskoðun á löggjöfinni, allt mjög vel þegin ráð og góð umræða sem þar fór fram. Þess vegna ákvað nefndin að varða leiðina að þessari heildarendurskoðun, meðal annars með því að fara þess á leit að fá þingsályktunartillögu í hendur þar sem sett er niður framkvæmdaáætlun, hvernig eigi að gera þetta. Við förum að sjálfsögðu í réttindagæslumálin strax eftir áramótin eða í byrjun næsta árs eins og kemur skýrt fram í nefndarálitinu og vinnum það þannig og ætlumst síðan til þess að geta unnið í samræmi við þá leiðarlýsingu sem hv. félags- og tryggingamálanefnd setur niður í sameiningu í þessu nefndaráliti. Það er mjög mikilvægt að ítreka það enn og aftur í þessari umræðu að þetta er unnið í sameiningu í nefndinni og það gerir niðurstöðuna þannig úr garði að ljóst er að farið verður eftir henni í störfum þingsins og í starfi nefndarinnar.

Heildarendurskoðunin er vörðuð frómum áætlunum nefndarinnar og allra þeirra sem starfa í þessum málaflokki, einnig ríkisins og að sjálfsögðu sveitarfélaganna sem nú ætla að taka á móti þessum mikilvægu verkefnum. Ég efast ekki um að það verði gert af miklum metnaði og faglega og eins vel og hægt er og að smám saman getum við á næstu mánuðum og missirum endurskoðað löggjöfina svo að hún verði í samræmi við kröfur þeirra sem nota þjónustuna og í samræmi við hugmyndir um mannréttindi og þá sáttmála, og þá ekki síst samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem við höfum undirgengist og ætlum að innleiða hér. Það er verkefni okkar allra og ég hygg að okkur sé ekkert að vanbúnaði að ráðast í það jafnframt því sem sveitarfélögin í landinu taka þessi verkefni yfir og taka þjónustuna yfir. Það verður svo unnið í góðu samkomulagi löggjafa og sveitarfélaga að marka nýja heildarrammalöggjöf um málefni fatlaðs fólks á Íslandi.