Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 14:28:42 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:28]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um flutning á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Hér er eingöngu verið að taka á því að færa verkefnið og umsýslu frá ríki til sveitarfélaga. Ekki er um að ræða endurskoðun á lögum um fatlaða einstaklinga heldur flutning á málaflokknum, framkvæmd og umsýslu, frá ríki til sveitarfélaga. Og er það vel.

Þegar það skref var stigið árið 1996 að færa grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga sýndi það sig að sveitarfélögin tóku með öðrum hætti á innra starfi skólanna en kostnaðurinn jókst því samfara. Hafa sveitarfélögin oftar en ekki kvartað yfir því að nægilegt fjárframlag hafi ekki fylgt málaflokknum. En við gleymum því stundum sveitarstjórnarmenn að um leið og þjónustan við íbúana er komin nær þá er tilhneigingin sú að veita bæði meiri þjónustu og annars konar þjónustu. Sveitarfélögin í landinu þurfa nú að skoða hvernig þau ætla að veita þjónustu við fatlaða. Það er alveg ljóst í mínum huga, frú forseti, að í samrekstri sveitarfélaga mun nást ákveðin samhæfing þjónustunnar eins og hún hefur verið með ákveðna félagsþjónustu við fatlaða og síðan alla aðra þjónustu og þá sérstaklega þegar við er átt þá fötluðu einstaklinga sem búa á sambýlum, á vistheimilum og/eða í þjónustukjörnum.

Það sem mun skipta máli nú, og einnig þegar lögin um málefni fatlaðra verða endurskoðuð, er að menn hverfi frá þeirri tegund af þjónustu sem oftar en ekki hefur verið veitt undanfarið og horfi frekar til persónustýrðrar notendaþjónustu sem kemur þeim sem eru á einn eða annan hátt fatlaðir betur. Þjónustan miðast þá við fötlun þeirra en ekki, eins og oft vill verða, kerfið sem veitir þjónustu vegna fötlunar. Að því leyti verður þetta án efa til bóta fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda. Það verður spennandi verkefni fyrir sveitarfélög að taka þennan málaflokk yfir og skoða á hvaða hátt þau geta haft þjónustuna öðruvísi en ríkið hefur haft hana fram til þessa. Það ríður á að frumkvæði sveitarfélaganna og ákveðin nýsköpun í þjónustunni eigi sér stað fljótlega þannig að þau festist ekki í því munstri sem þegar er og er ég ekki að átelja það en ég tel að margt megi betur fara. Ég ítreka að þetta verður spennandi verkefni fyrir sveitarfélögin að fá að takast á við og það verður áhugavert að fylgjast með því í náinni framtíð hvernig þeim ferst það hlutverk úr hendi.

Það er líka talað um það í frumvarpinu að svokölluð þjónustusvæði þurfi að ná yfir um það bil 8.000 manna samfélög. Þau eru ekki mörg en jafnframt er þess getið að hægt verði að veita undanþágu ef einstök sveitarfélög treysta sér til og eru til þess bær að taka við þeirri þjónustu þó að íbúar séu færri. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að sveitarfélög geti staðið saman að þjónustusvæðum og axlað þannig ábyrgð á samborgurum sínum þvert á sveitarfélög.

En það er annar þáttur í slíkri yfirfærslu sem hér á sér stað, frú forseti, sem mér þykir vert að reifa. Það er að stjórnsýslustigin í landinu eru í raun og veru tvö, þ.e. ríkið annars vegar og sveitarfélögin hins vegar. Sá munur er á þessu tvennu að sveitarfélögin þurfa ætíð að sæta eftirlitshlutverki ríkisins. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé hægt að horfa til þess að gera stjórnsýslustig sveitarfélaganna ábyrgara með einum eða öðrum hætti fyrir málaflokknum í heild sinni á sama hátt og ríkið er ábyrgt fyrir ákveðnum stofnunum og ákveðinni þjónustu í heild sinni. Hvað ríkið varðar er það Alþingis að hafa eftirlit með því að lögum sé framfylgt. Vissulega yrði það eins hvað varðar sveitarfélögin en sveitarfélögin ráða í raun ekki málaflokknum, þau fá hann yfir til að veita þjónustuna og framkvæma það sem þarf að gera. Mér finnst það áhugavert umræðuefni í endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra að skoða hvort ekki er hægt að ganga þannig frá málum að sveitarfélögin beri ábyrgð á málaflokknum frá A til Ö og það sé eftirlitsnefndar þings að sjá til þess að lögum sé framfylgt en sveitarfélögin hafi þetta sjálfstæði frá ríkinu.

Ég tek sem dæmi grunnskólann eins og árar í dag. Væri skráð í lög að nemandi grunnskólans ætti rétt á svo og svo mörgum kennslustundum á fyrsta stigi, svo og svo mörgum á miðstigi og svo og svo mörgum á efsta stigi gæti það verið sveitarfélagsins, bæði eftir því hvernig áraði og hvernig tækist að ráða kennara, að nýta svigrúm innan stigsins, hve margar kennslustundir væru kenndar í hverjum árgangi. En réttur barnsins á fyrsta stigi væri svo og svo margar kennslustundir og löggjafinn kæmi inn til að fylgja því eftir að svo væri. Þá hefðu sveitarfélögin ákveðið frelsi og ákveðið frjálsræði af því að þau ráða málaflokknum, þeim bæri að framfylgja lögum en innan laganna væri slíkur sveigjanleiki. Ég veit ekki hvort þetta gæti átt við í þjónustu við fatlaða en það kann að vera þó svo það gæti hugsanlega verið erfiðara þegar við erum jafnframt að reyna að taka á svonefndri persónustýrðri notendaþjónustu.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson ræddi umönnunarbætur sem er dálítið ömurlegt orð, bætur, mætti frekar kalla það umönnunarlaun rétt eins og við gætum kallað lífeyrisréttindi eða örorkulífeyri laun af því að það er verið að gera fólki kleift að vera til. Þegar rætt er um umönnunarlaun til aðstandenda vegna fatlaðra einstaklinga verða menn að gæta þess, þegar þessi málaflokkur fer yfir til sveitarfélaganna, að það verði tryggt að sveitarfélögin standi við bakið á þeim foreldrum eða aðstandendum sem óska þess og eru til þess bærir að hafa fatlaða einstaklinga inni á heimilinu, að foreldrum og aðstandendum sé gert það kleift og sveitarfélögin geti ekki komið í veg fyrir það. Það er ekki bara að það sé ódýrara, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson segir, það getur líka verið miklu manneskjulegra að einstaklingur búi heima hjá sér þó að þá sé fallið frá einhverju normi — það er erfitt að finna eitthvert norm um þessa þjóð, vart mundi ég sjálf falla undir eitthvert norm ef því er til að dreifa en hef hingað til ekki haft þann stimpil að vera fötluð á einhverju sviði nema það, samkvæmt hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, að ég nota gleraugu, það gæti verið flokkur fatlaðra. En þetta skiptir máli.

Eins og margoft hefur verið komið inn á er töluverður tími frá því að breyting varð á því að fólk væri geymt á stofnunum og fengi helst ekki að fara út fyrir girðingu. Í mínu sveitarfélagi voru til skamms tíma tvö sambýli, annað var á Tjaldanesi, fyrir þroskahefta drengi, og hitt var á Skálatúni, þar sem búa í sambýli í húsum, í stærra húsinu eins og við köllum það, þroskaheftir einstaklingar. Það fólk sem þar býr er þátttakendur í samfélagi okkar í einu og öllu. Það kemur út af heimilum sínum inn í það sem fram fer í sveitarfélaginu, inn á skemmtanir, er í bænum, gengur í búðir og verslun og gerir alla hluti eins og allir aðrir og það er vel. Fyrir utan það er líka hollt fyrir okkur hin, sem teljumst fylgja norminu, að átta okkur á því að maður getur átt gæfuríkt og innihaldsríkt líf þó að maður sé kannski pínulítið öðruvísi.

Frú forseti. Ég velti þessari umræðu upp, um stjórnsýslustigin tvö, vegna þess að mér finnst að við þurfum að hugleiða það þegar við færum málaflokka frá ríki til sveitarfélaga í hvaða mynd það er, hvort sveitarfélögin eru í raun með málaflokkinn eða hvort þau eru með framkvæmd þjónustunnar í umboði ríkisins. Það er töluvert annað og þetta verða menn að skoða. Þannig er það í dag með grunnskólann. Sveitarfélögin reka grunnskólann í raun og veru í umboði menntamálaráðuneytisins vegna þess að þau hafa ekki fullt yfirráð og fullt frelsi um það hvernig skólahaldi er háttað vegna þess að flestallt er niðurnjörvað og bundið í lög í kennslustundafjölda o.s.frv. Þegar við förum í lögin um málefni fatlaðra á að skoða þetta, þar eru ólíkir hópar, þar er fólk með ólíka fötlun.

Ég hlakka til að fylgjast með sveitarfélögunum takast á við þetta verkefni. Ég vona að við sjáum kraft í fólki, að það sjáist nýsköpun í þjónustugeiranum. Ég vona að frumkvöðlar ríði á vaðið og sýni fram á að margt má betur gera en gert er í dag þó svo að margt sé vel gert.