Ályktun hollenska þingsins um hvalveiðar Íslendinga

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 14:56:21 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

fundarstjórn.

[14:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa vakið máls á þessu einmitt á réttum vettvangi vegna þess að ég er að beina ákveðnum tilmælum til forseta. Ég er að fara fram á það við forseta að hún setji þetta málefni á dagskrá. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar þjóðþing einnar þeirra þjóða sem við stöndum í viðræðum við um þau mikilvægu málefni og kannski þau viðkvæmustu í þessu aðildarferli sem eru sjávarútvegsmálin kemur með slík skýr skilaboð eins og hollenska þingið samþykkti í gærkvöldi. Ég tel að íslenska þingið geti ekki látið hjá líða að svara þessu með einhverjum hætti, virðulegi forseti. Þess vegna beini ég því til forseta að komið verði á sérstakri umræðu eða í það minnsta að forseti og forsætisnefnd sjái til þess að utanríkismálanefnd komi saman og ítreki þá breiðu samstöðu sem er um hvalveiðar Íslendinga hér á þingi, þá breiðu samstöðu um að byggja þennan atvinnuveg upp til framtíðar og hefur ekkert með þá útúrsnúninga að gera sem ákveðnir þingmenn hafa verið með hér eins og hv. þm. Mörður Árnason.