Virðisaukaskattur

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 21:11:30 (0)


139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir framsögu hans með málinu og lýsi því jafnframt yfir að mér finnst ánægjulegt að hv. efnahags- og skattanefnd skuli hafa komist að niðurstöðu í þessu máli sem vonandi verður til þess að búa til samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir fyrirtæki á þessu sviði. Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá okkur hér á þingi að þessi fæðing hefur verið býsna erfið og tekið nokkurn tíma. Ég hef ekki sjálfur átt sæti í þeim nefndum sem að þessu máli hafa komið og ætla ekki að fjalla um það sem þar hefur gerst en spyr hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort ég hafi skilið orð hans rétt í tvennum skilningi, annars vegar að málið hafi unnist í góðri samvinnu og sátt þeirra ráðuneyta sem að málinu komu og hins vegar að ekki hafi verið um pólitískan ágreining að ræða milli einstakra flokka í málinu.