Virðisaukaskattur

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 21:16:09 (0)


139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að við eigum svo sem ekkert að eyða tíma í það hvað gerðist á einhverjum einstökum fundum í aðdraganda þessa, heldur bara njóta þessa fallega kvölds og gleðjast öll saman yfir því að góð lausn skuli hafa fundist fyrir þennan iðnað og vona að þetta verði mikilvægur þáttur í því að snúa hér vörn í sókn og hefja á ný vöxt í efnahagsstarfseminni á komandi ári. Ég held að þessi fyrirtæki geti orðið hluti af því.

Ég fagna því líka að hafa tækifæri til að koma hér upp aftur vegna þess að í gleði minni yfir gagnaverunum gleymdi ég að nefna þær breytingartillögur sem lúta að því að veita nú endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna almenningsvagna eins og hópferðabíla. Það hefur verið mikið baráttumál manna í þéttbýlinu og þeirra sem hafa lagt áherslu á almenningssamgöngur og sömuleiðis að framlengja skattalegar ívilnanir fyrir vetnis- og rafbíla.