Virðisaukaskattur

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 21:28:03 (0)

139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Það sem ég vil fjalla um í ræðu minni er það sem snýr beint að gagnaverunum svokölluðu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Fyrri hluta árs fjallaði efnahags- og skattanefnd mikið um fjárfestingarsamning við Verne Holdings sem þá leit út fyrir að yrði fyrsta stóra gagnaverið á Íslandi. Síðan gerðist það reyndar að það var stofnað lítið gagnaver, Thor Data Center, sem er komið í starfsemi. Um gagnaverið Verne Holdings voru miklar deilur á sínum tíma, um hvort staðfesta ætti fjárfestingarsamninginn en hvað um það, samningurinn var staðfestur.

Nú er ég það sem kallað er álhaus og í því felst að vilja veg áliðnaðarins sem mestan á Íslandi. Áliðnaðurinn er eins og við vitum mjög virðisaukandi, skapar mörg störf og við getum selt raforkuna okkar til áliðnaðarins. Það eru ekki allir eins og ég, (Gripið fram í: Nú?) álhausar, heldur hallast að því að það eigi að vera með fjölbreyttari iðnað og hafa í því sambandi bent á ýmsa starfsemi sem er orkufrek og skapar störf, og þar hafa menn oftast nefnt svokölluð gagnaver, að það væri nær að við færum út í gagnaver, byggðum þau og stuðluðum að þeim iðnaði hér á Íslandi. Bæði getum við selt orkuna á háu verði og skapað hátæknistörf. Þetta hljómar allt afar vel.

Svo kemur að því að það þarf að skapa umhverfi fyrir þessi álver og það þarf ýmsar lagabreytingar, til að mynda eins og þær sem við fjöllum um núna, breytingar á virðisaukaskattskerfinu og ég mun koma að aðeins síðar. Þegar á hólminn er komið kemur í ljós að það fólk sem talaði hæst um að það þyrfti eitthvað annað en þetta ál er líka á móti gagnaverunum.

Hér hafa menn óskað hver öðrum til hamingju með að vera komnir af stað með þennan nýja iðnað núna en ég ætla að rekja aðeins söguna, hvernig þetta kom til og hvað hefur gerst síðustu sólarhringana á Alþingi. Fyrst ætla ég þó að nefna að þau atriði sem stóðu út af varðandi gagnaverin voru í fyrsta lagi að fjármálaráðuneytið var ekki tilbúið til að gefa það eftir að greiddur yrði virðisaukaskattur af útflutningi gagnaveranna, í öðru lagi var fjármálaráðuneytið ekki tilbúið til að gefa það eftir að innflutningur á tækjum og búnaði til gagnavera væri virðisaukaskattsskyldur og í þriðja lagi vildi fjármálaráðuneytið að þau fyrirtæki sem skiptu við gagnaverin og geymdu búnað sinn hérna, netþjóna, væru með fastar starfsstöðvar á Íslandi. Ef með öðrum orðum fyrirtæki eins og t.d. IBM ætlaði sér að skipta við gagnaverin þyrfti það að skrá fyrirtækið hérna, stofna útibú hérna. Fyrirtæki sem er á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum og af þessari stærðargráðu þarf að uppfylla mörg skilyrði, það þarf að hafa forstjóra, framkvæmdastjóra, fjármálastjóra og allt þetta sem þarf þannig að því fylgdi gríðarlegur kostnaður fyrir fyrirtækið.

Það er skemmst frá því að segja að þetta virðisaukaskattsmál hefur verið í fjármálaráðuneytinu núna í 18 mánuði. Rétt eins og ræðumenn lýstu áðan í andsvörum hefur fjármálaráðherra lýst því margoft yfir að þetta sé óendanlega flókið mál að leysa úr. Síðan kemur málið loksins til kasta Alþingis, eða kemur réttara sagt ekki til kasta Alþingis vegna þess að hér kemur inn virðisaukaskattsfrumvarp þar sem einhverjar reglur um gagnaverin eru skýrðar og þá kemur í ljós að einhver hluti af starfseminni sleppur undan virðisaukaskatti, annað er virðisaukaskattsskylt eins og gengur.

Þá hefst vinna í efnahags- og skattanefnd sem er um margt merkileg. Hún var ekki mjög hnitmiðuð og það var greinilega einhver tregða í þessu öllu saman. Málið var annað slagið á dagskrá, tekið út, sett inn o.s.frv. Síðan verða kaflaskil í málinu þegar iðnaðarnefnd tekur málið raunverulega á forræði sitt tímabundið og það var kallað að iðnaðarnefnd væri að gefa álit á málinu. Það sem var í raun og veru að gerast var að iðnaðarnefnd var að reyna að leysa mál sem efnahags- og skattanefnd gat ekki leyst. Það vill svo til að ég er líka í hv. iðnaðarnefnd og veit að þar var reynt að greina vandamálið, það var talað við alla hlutaðeigendur og komið með tillögur. Hv. þm. Jón Gunnarsson vann með nefndasviðinu að því að útbúa breytingartillögur við þetta virðisaukaskattsfrumvarp sem ætlunin var að a.m.k. sjálfstæðismenn mundu flytja en seinna kom í ljós að hreyfing innan Samfylkingarinnar sem samanstendur af nokkrum einstaklingum var tilbúin til að vera á málinu.

Það eru villikettir í fleiri flokkum en Vinstri grænum um þessar mundir. (SKK: Nútímalegir jafnaðarmenn.) Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar hér fram í og kallar þá nútímalega jafnaðarmenn. Ég get tekið undir það. Þeir voru kallaðir hægri kratar áður og nú skulum við kalla þá nútímalega jafnaðarmenn. Það er þægilegt að eiga samskipti við nútímalega jafnaðarmenn vegna þess að skoðanir þeirra liggja mjög nálægt skoðunum okkar hægri manna í flestum málum en við skulum ekki fara út í það hér hvað greinir á milli til að skemma ekki stemninguna.

Þá var orðið ljóst að hægt yrði að mynda nýjan meiri hluta fyrir málinu í Alþingi og þessi nýi meiri hluti gæti komið málinu í gegn …

(Forseti (ÁI): Forseti vekur athygli á því að myndatökur í þingsal eru óheimilar.)

… án stuðnings annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Þá upphófst þónokkur darraðardans sem stóð í eina tvo sólarhringa og endaði í gærkvöldi á því að vinstri grænir gáfust upp fyrir málinu og þurfti ekki tilstilli okkar sjálfstæðismanna. Þetta var plan A hjá okkur, svo var eitthvað sem hét plan B en ég ætla ekki að fara nánar út í það hér velsæmisins vegna.

Hvað um það, málið var leyst í efnahags- og skattanefnd með virðisaukaskattinn á tækin og búnaðinn en með virðisaukaskattinn á hýsinguna þannig að breytingartillagan sem Sjálfstæðisflokkurinn og hluti af Samfylkingunni ætluðu að flytja var færð af þeirra nafni yfir á nöfn hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Álfheiðar Ingadóttur. Sú breytingartillaga liggur hér uppprentuð og menn geta séð hana. Ég bauðst reyndar til að vera líka á tillögunni, hæstv. forseti, en það var afþakkað.

Síðan eru einhver önnur mál afgreidd og ég fer heim að sofa um tólf- eða eittleytið í nótt, (Utanrrh.: Hvað var Álfheiður að gera?) vakna svo upp við Fréttablaðið í morgun og þá les ég þetta, með leyfi forseta:

„Þingmenn stjórnarflokkanna náðu á tíunda tímanum í gærkvöldi saman um að leggja til breytingar á lögum til að gagnaver á Íslandi verði samkeppnishæf við gagnaver í ríkjum Evrópusambandsins.“

Síðan segir í fréttinni, hæstv. forseti:

„Seint í gærkvöldi náðu þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að lokum saman um að leggja til að ekki verði innheimtur virðisaukaskattur af þjónustu gagnavera við viðskiptavini erlendis, segir Magnús Orri Schram, fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og skattanefnd.“

Ég er nú búinn að segja eitthvað af þessari sögu hérna en eins og í öllum góðum sögum væri hægt að fara tvær leiðir núna. Það væri hægt að fara leið hins nýja Íslands og segja allan sannleikann og hvernig kaupin gerðust á eyrinni eða það væri hægt að fara í hefðbundið kurteisishjal og segja undan og ofan af hlutunum án þess að þeir komi nákvæmlega í ljós. (Gripið fram í: Leið formanns efnahags- og skattanefndar.) Já, leið hv. formanns efnahags- og skattanefndar. (Utanrrh.: Þú ert fulltrúi nýja Íslands, segðu okkur.)

Ég er þeirrar skoðunar að margt megi breytast í störfum Alþingis og að það sé ekki allt til fyrirmyndar sem hafi verið iðkað hér á Alþingi í gegnum áratugina, en fyrir mér er Ísland bara gamla, góða Ísland þannig að ég ætla að fara einhvers konar miðjuveg í þessu máli, (Gripið fram í: Framsóknar…) ég ætla að fara, kannski er það framsóknarleiðin. Sú söguskoðun sem er verið að búa hér til, að þetta hafi verið eitthvert smámál sem hafi verið frágangsatriði á milli stjórnarflokkanna, er blekking aldarinnar. Þetta mál gekk mjög nærri stjórnarflokkunum í gærkvöldi og það er eingöngu til komið vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn gat búið sér til þá stöðu að þvinga stjórnarflokkana í þetta mál. Ef við sjálfstæðismenn hefðum ekki verið tilbúnir til að leggja það á okkur sem þurfti og fórna því sem fórna þurfti væri ekki að rísa gagnaveraiðnaður á Íslandi. (PHB: Þúsundir starfa.) Þúsundir starfa, kallar hv. þm. Pétur H. Blöndal fram í, og þúsundir verðmætra starfa. Þá væri jafnframt uppi sú staða að við værum búin að sjá hvað raunverulega vakir fyrir hinum mikla og umhverfisvæna flokki, Vinstri grænum, í atvinnumálum, það er auðn. Allt sem hefur verið gert í atvinnumálum í þessu landi síðan þessi nýja ríkisstjórn tók við hefur verið þvingað upp á vinstri græna. (Utanrrh.: Ertu búinn að …?)

Ég á mikla samleið með þeim hluta Samfylkingarinnar sem tilheyrir hinni órólegu deild en með öðrum hlutum Samfylkingarinnar á ég enga samleið. (Utanrrh.: Ég hélt að við ættum samleið, ég …) Hæstv. utanríkisráðherra, þú mátt ekki blanda vináttu saman við pólitíska samsýn. (Gripið fram í.)

Ég ætla að ljúka þessari ræðu minni. Mér finnst ég vera búinn að sýna nægilega vel núna hvernig kaupin gerðust á eyrinni til að menn geti melt það í framhaldinu og spurt spurninga. Þetta geri ég til að sýna landsmönnum og þingheimi fram á það að vinstri grænir eru á móti atvinnu sama hvaða nafni hún nefnist.