Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 21:46:18 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta verður æ skemmtilegra. Það er rétt að þar sem ég var sem forseti Norðurlandaráðs að stýra fundi forsætisnefndar ráðsins í Finnlandi fyrr í mánuðinum kallaði Kristján Möller, formaður iðnaðarnefndar, eftir því að iðnaðarnefnd fengi að fara yfir málið út frá fagþekkingu sinni. Það var auðvitað ekki nema auðsótt og gott að fá þá nefnd að málinu og að hún skoðaði með hvaða hætti mætti útfæra þetta. Það er rétt að útfærslan er raunar iðnaðarráðuneytisins um textann sjálfan. Það sem ég hef bara haldið hér til haga er að sjónarmiðin voru um ESA, hvort spyrja ætti ESA á undan lagasetningunni eins og fjármálaráðuneytið taldi rétt að gera eða á eftir eins og gagnaverin þrýstu á um. Það var tillaga mín og hugmynd, og kynnt á mánudagsmorguninn í fjármálaráðuneyti, til að sætta þessi ólíku sjónarmið að lögin yrði sett núna en tækju ekki gildi fyrr en 1. maí. Ég held að það hafi einfaldlega brúað þessi ólíku málefnalegu sjónarmið í málinu og leyst það í sjálfu sér fyrir báða aðila.

Fjármálaráðuneytinu þykir kannski ekki alveg áferðarfallegt að gera það með þeim hætti, en viðunandi fyrst það er mikilvægt fyrir iðnaðinn. Iðnaðinum hefði þótt best að þetta tæki gildi strax á morgun, en hlýtur að skilja að það eru eðlileg varúðarsjónarmið að spyrja ESA fyrst.

Til þess hvað hæstv. fjármálaráðherra kann að hafa sagt í gærkvöldi þekki ég ekki og hlakka til að heyra hvað hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur um það að segja sem virðist hafa upplifað ýmislegt hér sem ekki átti sér stað í veruleikanum.