Virðisaukaskattur

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 22:22:52 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[22:22]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að kveðja mér hljóðs um þetta mál, svokallað virðisaukaskattsmál. Það tengist mjög málefnum gagnavera hér á landi og er vel að lending hefur náðst í því mjög svo flókna máli. Hér hefur verið tekist á um mismunandi sjónarmið og vissulega nokkur álitaefni enda togast á flókin skattamál, áhugi þingmanna á að reisa og styrkja þennan iðnað hér á landi og samningar sem við höfum gert á vettvangi ríkisaðstoðar eða samkeppnismála, bæði hér innan lands og ekki síður við samstarfslönd okkar á vettvangi Evrópusambandsins og EFTA og hefur verið rakið ágætlega í fyrri ræðum í kvöld.

Ljóst er að um er að ræða eftirsóknarverðan samkeppnisiðnað fyrir okkar Íslendingar, grænan iðnað, og við höfum vegna grænu orkunnar hér mikið samkeppnisforskot sem ber að nýta. Hvernig getum við nýtt það með sem haganlegustum hætti þar sem við erum ekki í Evrópusambandinu? Við höfum reynt að leysa það á vettvangi þingsins og vonandi er það að takast með þeirri útfærslu sem hér hefur verið kynnt eftir ítarlega umfjöllun efnahags- og skattanefndar og iðnaðarnefndar.

Hér geta byggst upp eftirsóknarverð störf, tæknistörf. Við getum skapað mikinn arð vegna þess að gagnaver eru tilbúin til þess að kaupa raforku okkar dýrara verði en aðrir stórnotendur.

Ánægjulegt hefur verið að sjá samstarf hv. þingmanna um að koma þessu málefni áfram. Í því sambandi vil ég sérstaklega þakka öllum nefndarmönnum í iðnaðarnefnd úr öllum flokkum sem fjölluðu nokkuð ítarlega um málið sem og nefndarmönnum öllum í efnahags- og skattanefnd. Þar tóku t.d. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndunum, hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson og Pétur H. Blöndal, af skarið og var ánægjulegt að vinna með þeim að framgangi málsins.

Ég tel að það sé sómi að því hvernig þingið hefur nálgast þetta mál og að við getum öll sammælst um að við séum að stíga ánægjulegt skref til þess að byggja upp áhugaverðan iðnað í landinu. Nú er í sjálfu sér í höndum gagnaveranna sjálfra hvað þau gera þar sem við höfum á vettvangi þingsins reynt að skapa þeim sama umhverfi hvað varðar samkeppnismál og önnur gagnaver innan Evrópska efnahagssvæðisins eða innan Evrópusambandsins hafa. Þau eiga að geta boðið viðskiptavinum sínum þjónustu án þess að þurfa að leggja á hana virðisaukaskatt og boðið viðskiptavinum sínum að flytja inn vélbúnað til þess að reka þjónustuna sem seld er erlendum aðilum án þess að greiða virðisaukaskatt af tækjunum. Okkur hefur vonandi tekist vel upp við þessa lagasetningu. Við munum fá úr því skorið snemma á næsta ári hvort rétt hafi verið farið með.

Að lokum vil ég í þessari stuttu ræðu minni þakka hv. þingmönnum öllum fyrir samstarfið í iðnaðarnefnd og efnahags- og skattanefnd.