Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 22:31:35 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[22:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mér sérstök ánægja að mæla fyrir nefndaráliti og breytingartillögum í máli þessu við 2. umr. Hér er á ferðinni kerfisbreyting í álagningu vörugjalda og innheimtu bifreiðagjalda í landinu. Kerfisbreytingin felst í því að núna er horft til þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem fylgir hverri bifreið í álagningunni, bæði á bifreiðagjöldunum og eins á vörugjöldunum við innflutning. Það felur í sér að með tímanum verða þær bifreiðar sem menga mest heldur dýrari en þær eru í dag, en aftur á móti verða sparneytnari bílar, að ég tali ekki um bíla sem nota vistvænt eldsneyti eins og metan, ódýrari. Þegar á komandi ári 2011 má vænta þess að smábílar ýmiss konar og bílar sem menga lítið lækki umtalsvert í verði. Vegna þeirra breytingartillagna sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar leggur til munu hins vegar ekki verða þær hækkanir á stærri bílunum sem ella hefðu orðið, heldur gerum við ráð fyrir að þar verði innleiðingin á einum þremur árum til þess að draga úr verðlagsáhrifum. Sömuleiðis gerum við breytingar á flokkum til að tryggja að ýmsar vinsælar bílategundir verði ekki alveg eins hátt gjaldteknar eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Fyrirkomulag skattlagningarinnar er í anda þeirrar þróunar sem við sjáum á alþjóðavettvangi þar sem við leitumst við að nota skatta og gjaldakerfi til þess að draga bæði úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda sem er eitthvert stærsta viðfangsefni samtímans. Markmið frumvarpsins er að stuðla að ákveðinni neyslustýringu með því að endurspegla það að nokkru í gjöldunum sem lögð eru á við innflutning. Okkur er engin launung á að við gefum sérstakan afslátt fyrir mest mengandi bílana og að losun hefur hér af umferð verið umtalsverð og veruleg í alþjóðlegum samanburði. Það er hins vegar gleðilegt að það er mikil þróun í þessu. Bílaframleiðendur bæta nú árangur sinn í nýtingu á eldsneyti og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er auðvitað vegna þess að þeim er ljóst að í æ fleiri löndum tekur skattlagning mið af þessu og það skapar þrýsting á framleiðendur um að gera bragarbót á framleiðslu sinni og bæta eldsneytisnýtingu og innleiða nýja tækni og vistvæna orkugjafa.

Þær breytingar sem nefndin leggur til eru í fyrsta lagi til þess ætlaðar að koma til móts við athugasemdir sem ferðaþjónustan í landinu hafði fram að færa. Einkum töldu forsvarsmenn bílaleignanna að ákveðnir annmarkar væru á frumvarpinu sem gætu gert þeim erfitt fyrir að mæta þeirri miklu aukningu í eftirspurn eftir bílaleigubílum sem orðin er og fyrirsjáanleg er á næstu árum. Af því hafði ferðaþjónustan miklar áhyggjur vegna þess að þegar fólk ferðast til Íslands þar sem almenningssamgöngur eru takmarkaðar eru flug og bíll hjá mörgum ferðalanginum samtvinnuð og ef ekki er hægt að tryggja framboð af bílum er augljóst að það getur bitnað á ferðamannastraumi til landsins.

Þess vegna leggur nefndin til að það hámark, 750.000 kr., sem gert var ráð fyrir í niðurfellingu vörugjalda til bílaleigna verði hækkað í 1.250.000 kr. Það þýðir þá að stærri bílar sem bílaleigurnar nota mikið rúmast innan þessara marka, þær lenda því ekki í umtalsverðri gjaldtöku umfram það sem nú er eins og ella hefði orðið.

Til samræmis er slík niðurfelling fyrir vörugjald af innflutning á metanbílum líka hækkuð úr 750.000 kr. í 1.250.000 kr.

Þá leggjum við til að H-flokki í frumvarpinu, þar sem eru bílar sem losa 201–220 g, verði breytt þannig að hann nái til bíla sem losa 201–225 g og að flokknum fyrir ofan hann verði breytt til samræmis við það. Það er gert til þess að flytja nokkrar vinsælar bílategundir, ekki síst úti á landsbyggðinni, niður um flokk og gera þær þar með ódýrari í innkaupum og koma til móts við þær athugasemdir sem menn af landsbyggðinni höfðu fram að færa.

Sömuleiðis er lagt til, til að koma til móts við bílaleigurnar, að þær fái heimild til þess að selja bifreiðar strax eftir sex mánaða notkun, enda hafi þær verið eknar 20.000 km, nú til reynslu í tvö ár, 2011 og 2012. Það er fyrst og fremst hugsað til að koma til móts við það högg sem bílaleigurnar verða fyrir á eigið fé sitt, vegna þess að um leið og sá gleðilegi viðburður verður að verð á smábílum til almennings lækkar á næsta ári og örvar vonandi bílasölu í landinu og hjálpar bílgreininni, mun sú verðlækkun til almennings valda því að verðmæti smábílaflotans hjá bílaleigunum lækkar einnig. Það bitnar auðvitað beint á eiginfjárstöðu þeirra og þess vegna er þetta hugsað sem nokkurs konar mótvægisaðgerð til þess að hjálpa bílaleigunum á þessum tveimur árum. Einnig er það gert vegna þess að mönnum blöskrar að sjá að nýjustu bílarnir í landinu, þeir sem keyptir eru inn að vori, eru nýttir í ferðaþjónustunni yfir fjögurra mánaða tímabil en standa síðan ónýttir þúsundum saman yfir vetrarmánuðina m.a. vegna þess að það er aðeins heimilt að leigja þá í skamman tíma. Auk þess að heimila bílaleigunum að selja bílana strax eftir sumarið þannig að nýjustu bílarnir í landinu komist þá strax í notkun að vetri og standi ekki ónýttir mánuðum saman, er hvatt til þess að fjármálaráðuneytið taki til athugunar að gera breytingar á reglugerð þannig að heimilt verði yfir vetrartímann að leigja bílaleigubíla til lengri tíma en verið hefur til þessa og þá líka með það að markmiði að sá mikli bílafloti sem stendur á stæði allan veturinn fái einhver frekari verkefni.

Til þess að koma til móts við athugasemdir ekki síst af landsbyggðinni þar sem menn höfðu áhyggjur af því að stærri bifreiðar, jeppabifreiðar og aðrar slíkar sem menn þurfa þar sums staðar á að halda vegna aðstæðna og af öryggisástæðum, það eru einkanlega bifreiðar sem eru í flokkunum G, H, I og J í frumvarpinu, þ.e. bílar sem menga meira en 180 g, er í frumvarpinu gert ráð fyrir að vörugjöld þar færist til þess horfs sem þau voru fyrr á árum. Það mundi að óbreyttu leiða til nokkurrar hækkunar á næsta ári. Þar væri nokkuð af bifreiðum sem flyttust úr 30% vörugjöldum upp í 45% vörugjöld og nokkuð af bílum sem flyttust úr 45% vörugjöldum í 55, 60 og 65% gjöld. Það væru auðvitað umtalsverðar hækkanir ef þær brystu á allar í einu og hefðu neikvæð áhrif á verðlag á bílum og er hægt að taka undir þau sjónarmið af landsbyggðinni að sumu leyti. Þess vegna leggur meiri hlutinn til að á næsta ári verði veittur 20% afsláttur af flokkunum H, I og J þannig að vörugjöldin verði ýmist eilítið lægri en þau eru í dag, eða lítið eitt hærri, í mesta lagi 7% hærri en þau eru í ár. Það ætti þá ekki að vera það mikil aukning á gjöldum að það mundi hafa stórfelld áhrif á næsta ári. Lagt er til að árið eftir verði þessi afsláttur minnkaður í 10% en falli síðan niður á þriðja árinu. En við væntum þess líka að á þessu tímabili, haldi áfram sú öra þróun sem verið hefur að bílaframleiðendur komi með betri bíla sem nýti eldsneyti betur, flytjist bílar líka niður á milli flokka þannig að tegundir sem núna eru í hæstu flokkunum geti færst niður eftir skalanum og tekið þannig lægri gjöldum þegar afsláttar- eða innleiðingartímabilinu lýkur.

Þá hefur náðst samstaða um það hjá okkur í meiri hlutanum að ganga nokkru lengra í þessu efni og veita þennan afslátt líka fyrir þær bifreiðar sem eru í G-flokki og verður dreift sérstaklega í breytingartillögu sem lýtur að því, en þar eru bílar sem menga 180–200 g og er talsvert af vinsælum bílum á Íslandi í þeim flokki.

Þá er sömuleiðis gerð sú breyting að niðurfelling vörugjalda af nýjum metanbílum verður ekki bundin við að þessir bílar hafi verið gerðir að metanbílum í verksmiðjunum erlendis þar sem bílarnir eru upphaflega framleiddir, heldur er opnað fyrir þann möguleika að þegar keyptur er nýr bíll til landsins geti menn keypt hefðbundna bifreið en látið breyta henni hér á landi áður en hún fer á varanleg númer, og fengið í tengslum við það fulla niðurfellingu vörugjalda rétt eins og hún hefði verið keypt sem metanbifreið frá útlöndum. Það er gert til að fjölga enn frekar metanbílum í umferð, en líka til þess að hafa hvata til atvinnustarfsemi í landinu, en allnokkrir aðilar eru byrjaðir að vinna við breytingar á bílum í þessa átt. Það er sömuleiðis hluti af skattapakkanum þetta árið að veita sérstaka styrki, 100.000 kr. til þúsund notaðra bíla í landinu til þess að fara í breytingar yfir í metan, vegna þess að við eigum allnokkuð af metani sem ekki er nýtt og getum vel keyrt hluta af flotanum, ekki gríðarlegan stóran hluta en samt nokkur þúsund bíla, á metangasi sem við framleiðum hérlendis. Má jafnvel vænta þess að þar geti líka orðið framleiðsluaukning og að framleiðslan geti orðið víðar en hér og á Suðurlandsundirlendinu, en hún er enn sem komið er bundin við þessi svæði.

Síðan eru gerðar lítils háttar breytingar varðandi undanþáguflokkana. Þar eru teknir inn hinir svokölluðu jöklabílar sem þjóna ferðamönnum fyrst og fremst og fá þá sams konar meðferð og bílaleigur og leigubílar sem fá undanþágur á þeim forsendum að sú starfsemi sé mikilvægur hluti af þjónustu við ferðamenn. Það á auðvitað við um þessa aðila. Keppnisbifhjól eru tekin inn af því að keppnisbifreiðar hafa verið á undanþágum og er eðlilegt að mismuna ekki eftir því hvort um bifreið eða bifhjól er að ræða. Ýmsar slíkar smálegar breytingar eru gerðar.

Ég held að mér sé óhætt að segja að hér sé á ferðinni eðlileg breyting á skattheimtunni og aðferðinni við skattheimtu og að hún sé í samræmi við hina alþjóðlegu þróun, að hún hafi jákvæð umhverfismarkmið að leiðarljósi og að með þeim breytingum sem orðið hafa á málinu í meðförum nefndarinnar hafi þeir annmarkar og ágallar sem á var bent í umsagnarferlinu, bæði gagnvart ferðaþjónustunni og ekki síður landsbyggðinni, verið sniðnir af. Þetta getur orðið til þess að hleypa nokkru lífi bæði í bílgreinina og sömuleiðis í áframhaldandi þróun á nýtingu á innlendum vistvænum orkugjöfum eins og metani, með jákvæðum þjóðhagslegum áhrifum og efnahagslegum ávinningi fyrir okkur öll.