Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 22:47:12 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[22:47]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum breytingar á vörugjöldum bíla. Ég hef haft ýmislegt við frumvarpið að athuga, sérstaklega vegna flækjustigs þess. Skoðun mín á sköttum og skattheimtu hefur ætíð verið sú að þó að nauðsynlegt sé að innheimta skatta eigi að reyna að gera það með sem einföldustum og skilvirkustum hætti. Þeir sem hafa hlustað á umræðuna í kvöld geta ekki hafa komist að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að það sé árviss viðburður að reyna að flækja íslenska skattkerfið eins mikið og mögulegt er. Þótt vissulega sé þörf á að innheimta hærri skatta er það gert með þvílíkum aðferðum að það verður vart lengur fyrir aðra en færustu sérfræðinga að komast í gegnum alla þann skattaskóg sem rísa mun í þessu landi.

Ég geri aðallega athugasemdir við frumvarpið vegna þess að þó að hugmyndin að baki því sé góð, að draga úr kolefnislosun, reyna að bæta andrúmsloftið og menga minna, eru alvarlegar rökvillur í þeirri lagasetningu. Ég gerði athugasemdir við það í fyrsta nefndaráliti mínu við frumvarpið og leyfi mér að lesa það upp, með leyfi forseta:

„Dæmi um alvarlegar rökvillur í lagasetningu er fyrirliggjandi frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á vörugjöldum bifreiða. Þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á vörugjöldum bifreiða eru með tengingu við kolefnislosun þeirra og eru algerlega óraunhæfar og órökréttar þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir 29 undanþáguflokkum. Í undanþáguflokkunum eru allir þeir sem keyra mest og menga mest með undanþágur. Þar má nefna vöruflutningabíla, dráttarbíla, leigubíla, rútur og bílaleigubíla, sem ásamt öðrum undanþágum gerir það að verkum að nánast allt atvinnulífið er undanþegið, skattstofninn þrengist og skatturinn lendir nánast alfarið á fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa að keyra í vinnuna og út í búð. Hér er fjármálaráðherra búinn að gefast algerlega upp fyrir sérhagsmunahópum og almenningur borgar brúsann.“

Ég minnist þessi ekki að hafa séð undanþágur fyrir 29 sérhagsmunahópa í einu og sama frumvarpinu fyrr.

„Það eru einfaldlega engin haldbær rök fyrir því að flutningabílar sem menga gríðarlega eða erlendir ferðamenn á bílaleigubílum, svo að fá dæmi séu tekin, séu undanskildir kolefnisskatti. Hér er því ekki um stefnubreytingu í skattheimtu að ræða eins og ráðherrann vill telja fólki trú um, nema að því leyti að verið er að færa skattstofn í meira mæli yfir á almenning og láta undan þrýstingi frá sérhagsmunahópum undir yfirskini umhverfisstefnu.“

Neyslustýring getur verið ágæt, neyslustýring í umhverfismálum er að mínu mati nauðsynleg. Það þarf að reyna að finna með allróttækum hætti leiðir til þess að bæta umhverfið. Mengun er að verða alvarlegt vandamál víða og við sem búum rétt fyrir utan höfuðborgina sjáum iðulega þykka, gula slikju umlykja Reykjavík ansi marga daga á hverju ári. Það er mengun frá bílum. Útblástur bifreiða er vandamál.

Hér eru hins vegar skattálögur í umhverfisbúningi, skattur í grænni gæru, eins og einhver sagði. Á endanum verða það vinnuferðir og búðarferðir almennings sem eru skattlagðar, en allur annar akstur er að því virðist undanskilinn.

Það mundi nást eðlilegri og sanngjarnari árangur í þessum málaflokki með því að taka þá skatta beint í gegnum eldsneytið þar sem allir sem keyra væru þátttakendur í því umhverfisátaki sem þarf að takast á við hér á landi. Þá yrði jarðefnaeldsneyti skattlagt, ekki metan, ekki raforka ef hún er notuð sem eldsneyti, og ekki aðrir lífrænir minna mengandi orkugjafar. Það mundi hvetja fólk til þess að keyra minna af því bensínið yrði orðið dýrara. Það mundi ekki hamla innflutningi á bílum eins og frumvarpið gerir og er aðalástæðan fyrir öllum þessum undanþáguflokkum.

Ég geri athugasemdir við frumvarp á þessum forsendum. Búið er til óeðlilega mikið flækjustig í kringum tiltölulega einfalt mál. Ég hefði gjarnan viljað sjá þessa lagasetningu með öðrum hætti. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins sem kom fyrir efnahags- og skattanefnd sagði að menn hefðu beðið í langri röð fyrir utan fjármálaráðuneytið til að fá undanþágur frá þessum sköttum. Almennt séð er það ekkert góð lexía fyrir atvinnulífið í heild að allt saman skuli vera rekið á einhverjum undanþágum yfir höfuð, það getur ekki verið að íslenskt atvinnulíf sé almennt svo bágborið að það geti ekki borið sig öðruvísi en undir regnhlíf pilsfaldakapítalisma.

Að öðru leyti eru markmiðin hvað varðar betra andrúmsloft góð, en þeim hefði mátt ná mun auðveldar og skilvirkar með allt öðrum hætti en hér er gert.